Bíó og sjónvarp

Tónlist Hjaltalín kemur í stað díalógs

Sara McMahon skrifar
Gerði mynd með Hjaltalín Leikstjórinn Ani Simon-Kennedy gerði kvikmyndina Days of Gray sem sýnd verður á RIFF. Hjaltalín samdi tónlistina fyrir myndina.
Gerði mynd með Hjaltalín Leikstjórinn Ani Simon-Kennedy gerði kvikmyndina Days of Gray sem sýnd verður á RIFF. Hjaltalín samdi tónlistina fyrir myndina. Fréttablaðið/vilhelm
Bandaríski leikstjórinn Ani Simon-Kennedy frumsýnir kvikmyndina Days of Gray á kvikmyndahátíðinni RIFF. Þetta er fyrsta kvikmynd hennar í fullri lengd og var hún tekin upp hér á landi síðasta sumar. Hljómsveitin Hjaltalín semur tónlistina fyrir kvikmyndina, en tónlist sveitarinnar var jafnframt hvatinn að gerð hennar.

Days of Gray gerist í fjarlægri framtíð og segir frá einstakri vináttu drengs og stúlku. Myndin er laus við öll samtöl og því spilar tónlist hljómsveitarinnar veigamikið hlutverk í henni.

„Hugmyndin var að tónlist Hjaltalín kæmi í stað „díalógs“. En mig langaði einnig til að myndin yrði virðingavottur við tíma þöglu kvikmyndanna og afturhvarf til þess tíma þegar fólk naut kvikmynda við lifandi undirspil,“ útskýrir Kennedy, sem er stödd á Íslandi um þessar mundir í tengslum við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF.

Hugmyndina að myndinni má rekja til tónleika sem Kennedy fór á fyrir þremur árum. „Ég var í kvikmyndaskóla í Prag og kynntist þar Hrafni Jónssyni, sem skrifaði handritið að myndinni með mér. Eitt kvöld spurði hann mig hvort ég vildi fara á tónleika með íslenskri hljómsveit. Ég kíkti með honum og varð algjörlega dolfallin yfir tónlistinni, hún var svo falleg og sjónræn,“ rifjar Kennedy upp.

Tveimur árum eftir tónleikana fékk Kennedy styrk til að gera kvikmynd í fullri lengd og hafði í kjölfarið samband við umboðsmann Hjaltalín. Hún segir meðlimi sveitarinnar hafa tekið vel í hugmyndina og úr varð Days of Gray. Tökur á myndinni fóru fram á Reykjanesi í fyrrasumar og samanstóð tökuliðið af Íslendingum, Bandaríkjamönnum og Frökkum. „Það voru þrjú tungumál töluð á tökustað, sem mér þótti skemmtilegt í ljósi þess að myndin gerist í heimi án tungumáls.“

Kennedy bjó í París til átján ára aldurs og segist aðspurð alls óskyld hinni frægu Kennedy-fjölskyldu. „Ég er ekki skyld þeim. Föðurafi minn hét Katz en breytti nafni sínu í Kennedy eftir stríð. En ég fæ þessa spurningu mjög oft,“ segir hún og hlær.

Days of Gray verður sýnd með lifandi undirspili Hjaltalín í Gamla bíói á föstudag klukkan 21.

Days of Gray - Official Trailer from Bicephaly Pictures on Vimeo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×