Fótbolti

Kolbeinn og félagar mæta í sögulegan leik í Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson bíður eftir fyrsta markinu sínu í Meistaradeildinni.
Kolbeinn Sigþórsson bíður eftir fyrsta markinu sínu í Meistaradeildinni. Mynd/Nordicphotos/getty
Kolbeinn Sigþórsson og félagar í Ajax hefja leik í Meistaradeildinni í kvöld. Verkefni kvöldsins er ekki af auðveldari gerðinni fyrir Ajax því liðið heimsækir Barcelona á Nývang.

Íslenski landsliðsframherjinn verður væntanlega í fremstu víglínu hollenska liðsins í kvöld en Kolbeinn var vonandi bara hvíldur um síðustu helgi þegar hann byrjaði í fyrsta sinn á bekknum á tímabilinu.

Kolbeinn náði aðeins að spila tvo fyrstu leiki hollenska liðsins í Meistaradeildinni í fyrra og missti þá bæði af því að spila við enska stórliðið Manchester City og mæta Real Madrid á Santiago Bernabéu. Hann á enn eftir að skora sitt fyrsta Meistaradeildarmark og ekki væri slæmt ef það dytti inn á Nývangi í kvöld.

Ajax og Barcelona eiga sér bæði mikla sögu og sá sem tengir þó félögin fremur en einhver annar er Johan Cruyff, sem gerði frábæra hluti á báðum stöðum bæði sem leikmaður og þjálfari.

Þrátt fyrir þessi tengsl og velgengni beggja félaga í gegnum tíðina verður leikurinn í kvöld sá fyrsti þeirra á milli í sögu Evrópukeppninnar.

Allir leikirnir hefjast klukkan 18.45 en á undan verður Hjörtur Hjartarson með upphitun á Stöð 2 Sport. Barcelona - Ajax verður í beinni á Stöð 2 Sport en á sama tíma er hægt að horfa á Marseille - Arsenal á S2 Sport 3 og Chelsea - Basel á S2 Sport 4.

Hjörtur verður síðan með Meistaramörkin eftir leikina þar sem öll mörk kvöldsins verða sýnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×