Fótbolti

Jóhann Berg: Vonandi hangi ég inni í byrjunarliðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mynd/Valli
„Það var auðvitað frábær tilfinning að skora þrjú mörk í svona mikilvægum leik,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, hetja Íslendinga, eftir leikinn gegn Sviss í gær. Öll mörk Jóhanns í leiknum voru gullfalleg vinstri fótar skot upp í bláhornið, gjörsamlega óverjandi fyrir markvörð Svisslendinga.

„Það er vissulega magnað að koma svona til baka og ná í þetta mikilvæga stig. Maður vonar bara núna að ég hangi inni í byrjunarliðinu fyrir leikinn gegn Albönum,“ sagði Jóhann Berg og glotti við tönn.

„Ég hef líklega ekki séð flottari þrennu þótt ég segi sjálfur frá, en maður fær mikið sjálfstraust með auknum spilatíma hjá félagsliðinu mínu AZ Alkmaar. Það hefur mikið að segja og manni líður vel inni á vellinum. Ég skoraði líklega síðast þrennu á yngra ári í fjórða flokki.“

Íslenska landsliðið þarf samt sem áður að lagfæra varnarleik sinn fyrir leikinn á þriðjudaginn.

„Þeir fá að skora allt of ódýr mörk og liðið þarf að skoða varnarleik sinn vel fyrir leikinn gegn Albönum. Núna þurfum við stuðning og ég hvet alla til að mæta á Laugardalsvöllinn. Þetta verður einn mikilvægasti leikur sem Ísland hefur spilað.“-




Fleiri fréttir

Sjá meira


×