Bíó og sjónvarp

Ótrúleg saga Bling glæpahringsins

Sara McMahon skrifar
Söguþráður kvikmyndarinnar The Bling Ring er byggður á raunverulegum atburðum.
Söguþráður kvikmyndarinnar The Bling Ring er byggður á raunverulegum atburðum.
Kvikmyndin The Bling Ring verður frumsýnd í kvikmyndahúsum hér á landi á föstudag. Myndin er byggð á raunverulegum atburðum og segir frá hópi táninga sem brýst inn á heimili frægra einstaklinga.

Söguþráður myndarinnar er á þann veg að táningurinn Marc Hall hefur nám í nýjum skóla í Kaliforníu. Hann kynnist fljótlega Rebeccu Ahn, sem er afar upptekin af lífi fræga og ríka fólksins og er leikkonan Lindsay Lohan í sérstöku dálæti hjá henni. Eitt kvöld tekur parið upp á því að brjótast inn á heimili hótelerfingjans Paris Hilton og ræna ýmsum fatnaði og skartgripum. Tvíeykinu þykir ránið svo vel lukkað að það heldur innbrotunum áfram og nú í slagtogi við fleiri vini sína: Nicki Moore, Chloe Tayner og Sam Moore.

Sagan minnti á bíómynd

Leikstjóri myndarinnar er Sofia Coppola, sem hefur áður leikstýrt myndum á borð við Somewhere, Lost in Translation og The Virgin Suicides. Coppola skrifar jafnframt handrit myndarinnar og bróðir hennar, Roman Coppola, framleiðir hana. Hvatinn að gerð myndarinnar var grein sem birtist í tímaritinu Vanity Fair og fjallaði um ránin. „Þegar ég las greinina fannst mér sagan hljóma nánast eins og söguþráður kvikmyndar. Ég kom mér í samband við blaðamanninn og því meira sem ég fékk að vita, því áhugaverðara fannst mér efnið. Mér fannst sagan segja svo mikið um samtíma okkar og samtímamenningu,“ sagði Coppola.

Tökur á The Bling Ring hófust í mars í fyrra og var heimili Hilton á meðal tökustaða. Með helstu hlutverk myndarinnar fara Katie Chang, Israel Broussard, Emma Watson, Claire Julien, Taissa Farmiga og Leslie Mann. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes nú í ár og hlaut fínar viðtökur. Watson, Broussard og Chang þykja þá sýna frábæran leik.

The Bling Ring hlýtur sextíu prósent í einkunn á vefsíðunni Rottentomatoes og 66 prósent á vefsíðunni Metacritic.



Með eigin raunveruleikaþátt

The Bling Ring er byggð á sögu hóps ungs fólks sem gekk undir nöfnunum Hollywood Hills Burglar Bunch og The Burglar Bunch í fjölmiðlum. Hópurinn samanstóð aðallega af sjö táningum sem brutust inn á heimili ríkra og frægra á tímabilinu frá október 2008 og fram í ágúst 2009. Hópurinn rændi skartgripum, fatnaði og peningum að andvirði 360 milljóna króna. Athygli vakti að táningarnir voru flestir vel efnaðir.

Hópurinn braust meðal annars ítrekað inn á heimili Paris Hilton, en einnig inn til leikkvennanna Megan Fox, Rachel Bilson og Lindsay Lohan, raunveruleikastjörnunnar Audrinu Patridge og á heimili Orlandos Bloom og Miröndu Kerr.

Forsprakki hópsins var Rachel Lee, sem skipulagði flest innbrotin, en aðrir meðlimir hópsins voru Nick Prugo, Diana Tamayo og systurnar Alexis Neiers, Gabrielle Neiers og Tess Taylor. Systurnar fengu í kjölfarið eigin raunveruleikaþátt sem sýndur var á sjónvarpsstöðinni E!. Táningarnir fengu flestir tveggja ára fangelsisdóm fyrir innbrotin og hafa flestir setið þann dóm af sér.

Leikkonan Emma Watson leikur Nicki í The Bling Ring, en persónan er byggð á Alexis Neiers. Watson lét þau orð eitt sinn falla að hún hefði átt í stökustu vandræðum með að samsama sig persónu sinni. „Sumt sem hún segir er svo brjálað og fjarstæðukennt að mér þótti það hrein áskorun að fá það til að hljóma sannfærandi,“ sagði leikkonan.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá systurnar ræða um þátt sinn í innbrotunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×