Körfubolti

Utan vallar: Nú á körfuboltafólk að mæta í höllina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi. Ein af ungum stjörnum íslenska liðsins. Fréttablaðið/Daníel
Haukur Helgi. Ein af ungum stjörnum íslenska liðsins. Fréttablaðið/Daníel Fréttablaðið/Daníel
Körfuboltaáhugafólk á Íslandi er oft að kvarta yfir umfjöllun um íslenskan körfubolta í íslenskum fjölmiðlum og fyrir utan aprílmánuð, þegar úrslitakeppni karla fangar sviðsljósið, er karfan ekkert alltof áberandi í miðlum landsins.

Eins og landsliðið hjálpar handboltanum er ekki sömu sögu að segja um körfuboltann. Landsleikirnir eru oftast ekki nógu vel sóttir og er örugglega hægt að nefna ástæður eins og að leikirnir fara fram utan keppnistímabilsins og möguleikar íslenska liðsins til afreka í flestum þessara leikja eru ekki voðalega miklir.

Það verður hins vegar fróðlegt að sjá hvort umrætt íslenskt körfuboltaáhugafólk sýni samtakamátt í kvöld þegar íslenska landsliðið fær sannkallaðan úrslitaleik í Laugardalshöllinni.

Handboltaáhugafólk hefur margoft troðfyllt Höllina á síðustu árum en við eigum enn eftir að sjá fullt hús í mikilvægum landsleik í körfunni. Nú er aftur á móti full ástæða til þess að fylla Höllina og hjálpa íslenska landsliðinu að stíga stórt skref í átt að því að komast í úrslitakeppni EM í fyrsta sinn.

Strákarnir í liðinu hafa án nokkurs vafa unnið sér inn stuðninginn með frammistöðu sinni á þessu ári og fyrir utan smá slys í Búlgaríu á dögunum hefur íslenska liðið heillað þá sem á horfa með kappsemi, leikgleði og samvinnu.

Hver vill núna missa af því að sjá kappa eins og Jón Arnór Stefánsson, Hlyn Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson á hátindi ferils síns spila fyrir fyrstu alvöru möguleika Íslands á að komast á EM? Ég ætla ekki að missa af þessu og treysti á að allt alvöru körfuboltaáhugafólk láti sig heldur ekki vanta í Höllina í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×