Skoðun

Leggjum af Landsdóm strax

Árni Páll Árnason skrifar
Þing Evrópuráðsins hefur samþykkt ályktun um aðskilnað refsiábyrgðar og stjórnmálalegrar ábyrgðar stjórnmálamanna. Þá ályktun ber okkur að taka alvarlega, enda Evrópuráðið lykilstofnun í uppbyggingu lýðræðis og mannréttinda í Evrópu undanfarna áratugi.

Ráðið leggur áherslu á að forðast skuli sérstakt fyrirkomulag málssókna vegna brota stjórnmálamanna í starfi og að almennar leikreglur eigi að gilda um stjórnmálamenn sem aðra borgara. Ekki beri að refsa mönnum fyrir pólitískar ákvarðanir eða pólitískt mat, heldur eigi stjórnmálamenn að svara fyrir þær í kosningum.

Landsdómsmálið var okkur ekki til virðingarauka og gerði íslenskum stjórnmálum ekkert gott.

Þessi niðurstaða á að skapa samstöðu á vettvangi stjórnmála á Íslandi um að leggja af Landsdóm. Samfylkingin hefur ávallt verið mótfallin því að sérúrræði gildi um refsiábyrgð stjórnmálamanna og nægir að minna á margítrekaðan tillöguflutning Jóhönnu Sigurðardóttur þess efnis á fyrri tíð.

Slíkar tillögur fengust þá aldrei afgreiddar. Þótt flestir gætu verið sammála um að ákvæði um Landsdóm væru óskynsamleg, voru einhvern veginn önnur verkefni brýnni. Og til að leggja af Landsdóm þurfti að breyta stjórnarskrá og þær breytingar hafa alltaf verið afar flóknar í framkvæmd.

Nú höfum við algerlega nýtt tækifæri til að taka til í stjórnskipun landsins og hreinsa af okkur óværu eins og ákvæðin um Landsdóm. Fyrir Alþingi liggur til staðfestingar nýtt frumvarp til stjórnskipunarlaga, sem ég er fyrsti flutningsmaður að, sem gerir okkur kleift að gera breytingar á stjórnarskrá án þingrofs og kosninga á yfirstandandi kjörtímabili. Allt sem þarf er að samþykkja það frumvarp og leggja síðan tillögu til stjórnarskrárbreytingar fyrir þjóðina.

Það er því gríðarlegt lag fyrir stjórnarskrárumbætur núna.

Það er engin þörf að ýta lengur á undan okkur sjálfsögðum breytingum á stjórnarskrá.

Við höfum einstakt tækifæri til að laga það sem laga þarf og gefa þjóðinni í fyrsta sinn fullnaðarvald til stjórnarskrárbreytinga.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×