Körfubolti

Hörður Axel leitar að nýju liði í Evrópu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hörður í leik með Keflavík árið 2011.
Hörður í leik með Keflavík árið 2011. fréttablaðið/Daníel
Hörður Axel Vilhjálmsson hefur fengið sig lausan undan samningi sínum við þýska úrvalsdeildarfélagið Mitteldeutscher BC og hyggst leita á ný mið. Hann útilokar að spila hér á landi á næsta tímabili.

„Ég kunni mjög vel við mig í Þýskalandi og þetta voru tvö mjög góð ár þar. Ég hafði yfir voðalega litlu að kvarta,“ segir Hörður Axel en ekki liggur fyrir hvert hann fer næst.

„Það gæti skýrst á morgun eða eftir tvo mánuði. Það eru möguleikar í boði fyrir mig enda hefði ég ekki losað mig undan samningnum í Þýskalandi hefði svo ekki verið. Það eru spennandi tímar fram undan hjá mér,“ segir Hörður Axel og bætir við að hann sé ekki að fara að spila á Norðurlöndunum.

„Nei, hvorki á Íslandi né í Skandinavíu. Íslensku liðin vita það öll og hafa því ekki verið að ræða sérstaklega við mig.“

Hörður Axel er uppalinn Fjölnismaður en hefur einnig spilað með Njarðvík og Keflavík. Hann á einnig leiki að baki á Spáni þar sem hann lék með tveimur liðum. MBC hafnaði í sextánda sæti deildarinnar en Hörður Axel var með 9,6 stig og 3,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×