Skoðun

Um hvað snúast stjórnmál?

Stjórnmál snúast um þekkingu á því hvernig þjóðfélagið er skrúfað saman. Þjóðfélag snýst um fólk. Og fólk á sér líf. Þannig að stjórnmál snúast um það hvernig lífi við lifum.

Lifir þú góðu lífi? Ef svarið er já – gott. Ef það er nei – hvers vegna ekki? Er það vegna sjálfs þín eða ytri aðstæðna? Ef það er vegna sjálfs þín – gangi þér vel að bæta úr. Ef það er vegna ytri aðstæðna – hvað er það í þeim sem er ekki nógu gott? Fjölskyldan? Vinirnir? Skólinn? Vinnan? Þjóðfélagið? Er skilningur stjórnvalda enginn? Skattarnir of háir? Afborganirnar? Reikningarnir? Eru engin störf við hæfi? Frelsið of lítið? Tækifærin of fá?

Fjölskyldunni er erfitt að breyta. Og líka vinunum. En þjóðfélaginu er sannarlega hægt að breyta í gegnum stjórnmálin. Með því að kjósa afar hæft, klárt og heiðarlegt fólk sem er treystandi til að skapa þjóðfélag sem snýst um líf okkar borgaranna – en ekki bara líf ríkisins og stjórnvalda.

Röng og spillt stjórnmálastefna drepur alla sjálfsbjargarviðleitni bæði fólks og fyrirtækja. Með skattpíningu lækka útborguð laun niður í ekki neitt. Og reikningarnir vaxa manni yfir höfuð. Alveg eins og afborganirnar og skattarnir. Slík stjórnvöld eyðileggja möguleika fólks og lítilla fyrirtækja til þess að búa til ný tækifæri og spennandi störf. Frelsið kafnar. Tækifærin hverfa.

Því það er fólk sem býr til tækifærin – ef það hefur frelsi og svigrúm til þess frá stjórnvöldum og er ekki skattpínt til dauða. Um það snúast stjórnmál. Þau snúast um traust og tækifæri. Um það hverjum maður treystir fyrir lífi sínu og framtíð.

Stjórnmálamenn eru þannig ekkert ósvipaðir skurðlæknum og ljósmæðrum. Eða myndir þú treysta hverjum sem er til að skera þig upp eða taka á móti barninu þínu? Hvaða stjórnmálaflokki treystirðu best fyrir barninu þínu? Lífi þínu? Frelsi ykkar og framtíðartækifærum?




Skoðun

Sjá meira


×