Skoðun

Hvernig forsætisráðherra vilt þú?

Björn Ólafur Hallgrímsson skrifar
Við göngum nú senn að kjörborðinu og veljum okkur þingmenn næsta kjörtímabils. Þótt hér sé ekki virkt persónukjör, en menn kjósi þess í stað stjórnmálaflokka með gagnslitlum möguleikum til sjálfstæðrar röðunar innan framboðslistanna, mun val okkar væntanlega leiða til þess að hér verði mynduð samsteypustjórn, líklega tveggja eða þriggja flokka.

Val okkar í kjörklefanum mun óbeint ráða mestu um hvernig samsteypustjórn kemst á og hver verði forsætisráðherra. Álengdar sjáum við nokkra forystumenn stjórnmálanna gera sig líklega til að máta sig við stól forsætisráðherra. Það er nauðsynlegur undirbúningur hvers kjósanda, að gera sér grein fyrir hvaða kostum sá frambjóðandi þarf að vera búinn, sem yrði líklegur forsætisráðherra, en ekki síður hvaða ókosti hann má ekki hafa.

Á þinn forsætisráðherra t.d. að vera ræðuskörungur, vammlaus, vel menntaður, með stjórnmálareynslu, þekktur af heiðarleik, drengskap, víðsýni, staðfestu og fleiri góðum kostum?

Má flokkur þíns forsætisráðherra hafa borið meginábyrgð á fjármálahruninu 2008?

Er æskilegt að þinn forsætisráðherra hafi ríka reynslu af alls kyns mislukkuðu fjármálavafstri, sem leitt hafi af sér gríðarlegt tap sem bitnað hafi fyrst og síðast á þjóðinni?

Má flokkur þíns forsætisráðherra vera þekktur að því að gæta hagsmuna sinna flokksbræðra fremur en þjóðarinnar allrar?

Má þinn forsætisráðherra hafa fengið verulegar afskriftir eftir fjármálahrunið 2008?

Má hann vera meðal þeirra, sem auðgast af spillingarverkum stjórnmálanna á fyrri árum?

Má hann hafa viðhaft óábyrgan fagurgala um aðferðir til lausnar á efnahagsvanda heimila og ríkissjóðs?

Má hann með svonefndri „ótrúlegri heppni“ hafa bjargað fjármunum sínum og sinna á ögurstundu í aðdraganda hrunsins og þá á kostnað annarra?

Hvað segja svör þín við þessum og fleiri ámóta spurningum þér að gera í kjörklefanum?




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×