Skoðun

"Hvað ætla Píratar að gera fyrir landsbyggðina?“

Herbert Snorrason skrifar
Þetta er spurning sem við heyrum nokkuð oft. Hún byggist, að ég tel, á tvíþættum misskilningi. Annars vegar er það ranghugmynd um Pírata: Að við séum upp til hópa latte-lepjandi hippar úr miðbæ Reykjavíkur sem enga reynslu hafa af því hvernig það er að búa úti á landi. Hins vegar er það ranghugmynd um þann vanda sem steðjar að íslensku samfélagi: Að landsbyggðin þurfi á sérstakri aðstoð og sértækum aðgerðum að halda, svo hinar „dreifðu byggðir“ geti áfram haldist í byggð.

Þetta er hvort tveggja rangt. Ég hef til dæmis enn ekki lært þá kúnst að lepja latte – eða kaffi yfirhöfuð. Ég er líka Ísfirðingur, fæddur og uppalinn í faðmi fjalla blárra. Ég er aðskotahlutur í Reykjavík, og nota hvert einasta tækifæri sem býðst til að koma aftur heim. Ég er ekki einn á meðal Pírata. Jafnvel í hópnum sem kom starfinu af stað á höfuðborgarsvæðinu eru ófáir sem hafa reynslu af því að búa úti á landi.

Sjálfsákvörðunarréttur

Þetta er samt ekki lykilatriðið. Lykilatriðið er að ein af grundvallarforsendum stefnu Pírata er hugmyndin um sjálfsákvörðunarrétt:

Þeir sem verða fyrir áhrifum af ákvörðun þurfa að hafa rétt til að hafa áhrif á ákvörðunina. Píratar vilja af þessum sökum draga úr miðstýringu og auka upplýsingagjöf til almennings. Jafnvel þó við værum eintómir latte-lepjandi hippar sem aldrei yfirgæfu 101 Reykjavík, þá ætti stefna Pírata að falla vel að þörfum landsbyggðarinnar.

Leggja áherslu á nærþjónustu

Tilfellið er nefnilega það að landsbyggðin þarf ekki á því að halda að ríkið ráðist í að dæla peningum frá Reykjavík til að niðurgreiða landsbyggðina. Hún þarf á því að halda að ríkið hætti að „spara“ með því að byggja stórar þjónustumiðstöðvar í Reykjavík og leggja niður aðra þjónustu af sama tagi. Íbúar Reykjavíkur þurfa á því sama að halda.

Hvaða vit er í því að byggja hátæknisjúkrahús þegar heilsugæslan er að því komin að hrynja niður? Er ekki eðlilegt að leggja áherslu á nærþjónustu og eiga sérhæfðari stofnanirnar sem bakstopp í alvarlegri tilvikum? Hvers vegna er Háskóli Íslands allur á einum stað? Mætti ekki fara að fordæmi Kaliforníuháskóla, sem rekur kennslustöðvar á nokkrum stöðum í fylkinu? Vissulega fylgir þessu kostnaður á þeim stöðum þar sem nærþjónustan er veitt, en það er ekki þar með sagt að það feli í sér niðurgreiðslu frá Reykjavík. Hvernig væri t.d. að miða við að útgjöld ríkissjóðs í hverju sveitarfélagi séu svipaðar tekjum hans í því sveitarfélagi?

Gerum hlutina sjálf

Píratar vilja ekki lofa því að eitthvað sé gert fyrir fólk; við viljum gera fólki kleift að gera hlutina sjálft. Þetta er hægt með ýmsum hætti:

Píratar vilja auka aðkomu almennings að ákvarðanatöku, á öllum stigum og í öllum kerfum. Beint lýðræði, ekki aðeins þegar kemur að löggjöf heldur einnig í fjárlagagerð, framkvæmdum, og innan reksturs. Valddreifing, tilfærsla ákvörðunarréttar til þeirra sem verða fyrir beinum áhrifum, þýðir að hagsmunir utanaðkomandi aðila hafa minni áhrif á ákvörðunina sem tekin er. Það ætla Píratar að gera fyrir landsbyggðina – og höfuðborgarsvæðið líka.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×