Körfubolti

Kvartanir KR-inga hlægilegar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Shannon McCallum í leik með KR.fréttablaðið/stefán
Shannon McCallum í leik með KR.fréttablaðið/stefán
Í kvöld fer fram annar leikur KR og deildarmeistara Keflavíkur um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta kvenna. Keflavík er með 1-0 forystu eftir sigur á heimavelli um helgina en leikurinn fer fram í vesturbæ Reykjavíkur í kvöld.

„Við dvöldum ekki lengi við þetta tap,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR. „Þetta var bara fyrsti leikurinn. Við ætlum að vinna okkar leiki á heimavelli og taka svo einn í Keflavík.“

Eftir leik á laugardaginn kvartaði Finnur Freyr undan Keflvíkingum og sakaði þá um að hafa spilað of hart á Shannon McCallum, helstu stjörnu KR-liðsins.

„Hún var hökkuð í spað og henni var ýtt og haldið frá boltanum allan leikinn. Það var samt ekki ein einasta villa dæmd á það,“ sagði Finnur við Vísi eftir leik. Hann sagði svo í gær að þetta hefði ekki verið neitt nýtt.

„Þetta hafa liðin gert síðustu mánuði eða tvo. Þau hafa komist upp með að spila fullfast á hana miðað við aðra leikmenn í deildinni,“ sagði Finnur.

Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, gaf lítið fyrir þessar ásakanir. „Það er bara hlægilegt,“ sagði Sigurður sem var vitanlega ánægður með sigurinn, þó svo að það sé ávallt hægt að gera betur.

„Við getum spilað betur, sérstaklega miðað við sóknarleik okkar í fyrri hálfleik. Fráköst og tapaðir boltar hafa líka verið að stríða okkur og við getum bætt okkur þar líka.“

Finnur segir vandamál KR-inga vera fyrst og fremst í hugarfarinu. „Við þurfum að halda haus betur en við gerðum síðast. Þá vorum við í séns í 28 mínútur en misstum þá hausinn og komumst ekki til baka. Keflavík er með gríðarlega vel mannað lið en ég hef fulla trú á sigri,“ sagði Finnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×