Körfubolti

Alltaf í lokaúrslitum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson með dóttur sinni Lovísu Bylgju eftir að Njarðvíkurkonur unnu bikarinn í fyrra.
Sverrir Þór Sverrisson með dóttur sinni Lovísu Bylgju eftir að Njarðvíkurkonur unnu bikarinn í fyrra. Mynd/Valli
Sverrir Þór Sverrisson og lærisveinar hans í Grindavík hefja annað kvöld leik í úrslitaeinvíginu í Dominos-deild karla á móti Stjörnunni í Grindavík. Sverrir Þór er búinn að koma liði sínu alla leið í lokaúrslitin á sínu fyrsta ári sem þjálfari í meistaraflokki karla en hann er langt frá því að vera ókunnugur því að fara alla leið með liðið sitt.

Sverrir Þór hafði áður gert frábæra hluti með kvennalið Njarðvíkur og kvennalið Keflavíkur og státar nú af þeim frábæra árangri að fara með lið sitt alla leið í úrslit á fyrstu fimm tímabilum sínum sem þjálfari meistaraflokksliðs.

Sverrir Þór hefur þegar gert tvö lið að Íslandsmeisturum, Keflavík 2005 og Njarðvík 2012 og lið hans hafa samtals unnið níu af ellefu einvígum sínum í úrslitakeppni. Keflavíkurliðið fór einnig í úrslit árið eftir (2006) og Njarðvíkurkonur voru öllum að óvörum í lokaúrslitum 2011 þrátt fyrir að enda aðeins í fimmta sæti í deildinni.

Sverrir Þór varð sjálfur þrisvar sinnum Íslandsmeistari sem leikmaður en hann var lykilmaður í meistaraliði Keflavíkur frá 2003 til 2005. Keflavík fór einnig í lokaúrslitin árið 2002 og spilaði því Sverrir Þór fjögur ár í röð um titilinn. Þetta Keflavíkurlið er jafnframt síðasta liðið sem náði því að verja Íslandsmeistaratitilinn sinn (2005) en Grindavík á því möguleika á því að vera fyrsta liðið í átta ár sem lyftir Íslandsmeistarabikarnum tvö ár í röð.

Grindvíkingar eru þegar búnir að næla sér í tvenn verðlaun á tímabilinu, því þeir urðu deildarmeistarar og urðu í öðru sæti í bikarnum eftir tap á móti Stjörnunni í bikarúrslitum.

Hér fyrir neðan má sjá yfirlit yfir fimm tímabil Sverris Þórs sem þjálfara í meistaraflokki en á þessum fimm tímabilum hafa lið hans spilað 35 leiki í úrslitakeppni og unnið 23 þeirra eða 65,7 prósent. Sigurhlutfall liða hans í deildarkeppninni er bara örlítið betra (77 sigrar í 110 leikjum eða 70 prósent).

Yfirlit yfir tímabilin fimm.
Mikilvægi fyrsta leiksins í úrslitaeinvíginu hefur verið mikið í þjálfaratíð Sverris en í öllum fjórum úrslitaeinvígum hans hjá konunum hefur það lið unnið Íslandsmeistaratitilinn sem landaði sigri í fyrsta leik lokaúrslitanna. Nú er að sjá hvort Sverrir Þór komist í klúbb þeirra þjálfara sem hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn í úrslitakeppni hjá bæði körlum og konum. Meðlimirnir eru aðeins tveir í dag – Benedikt Guðmundsson og Sigurður Ingimundarson.



Tímabil Sverris Þórs Sverrissonar sem þjálfari í meistaraflokki:

2004-05 Keflavík, konur

Deildin: 17 sigrar - 3 töp (Deildarmeistari)

Undanúrslit:

Keflavík 2-1 ÍS {77-71 (64-64), 54-75, 79-73}

Úrslitaeinvígi:

Keflavík 3-0 Grindavík {88-71, 89-87 (81-81), 70-57}

Niðurstaða: Íslandsmeistari



2005-06 Keflavík, konur

Deildin: 12 sigrar - 8 töp (3. sæti)

Undanúrslit:

Grindavík 0-2 Keflavík {83-90, 72-97}

Úrslitaeinvígi:

Haukar 3-0 Keflavík {90-61, 79-77, 81-77}

Niðurstaða: 2. sæti



2010-11 Njarðvík, konur

Deildin: 10 sigrar - 10 töp (5. sæti)

1.umferð:

Haukar 0-2 Njarðvík {71-84, 83-55}

Undanúrslit:

Hamar 2-3 Njarðvík {85-77, 78-86, 83-47, 70-79, 67-74}

Úrslitaeinvígi:

Keflavík 3-0 Njarðvík {74-73, 67-64, 61-51}

Niðurstaða: 2. sæti



2011-12 Njarðvík, konur

Deildin: 20 sigrar - 8 töp (2. sæti)

Undanúrslit:

Njarðvík 3-1 Snæfell {87-84, 83-85, 93-85, 79-78}

Úrslitaeinvígi:

Njarðvík 3-1 Haukar {75-73, 74-56, 66-69, 76-62}

Niðurstaða: Íslandsmeistari



2012-13 Grindavík, karlar

Deildin: 18 sigrar - 4 töp (Deildarmeistari)

8 liða úrslit:

Grindavík 2-0 Skallagrímur {103-86, 102-78}

Undanúrslit:

Grindavík 3-1 KR {95-87, 72-90, 95-80, 92-88}

Úrslitaeinvígi:

Grindavík ?-? Stjarnan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×