Skoðun

Evrópa á dagskrá!

Árni Páll Árnason skrifar
Aðild að Evrópusambandinu er praktísk nauðsyn. Hún er engin hugmyndafræðileg meinloka. Hún er einfaldlega skynsamlegasta leiðin áfram fyrir metnaðarfulla norræna velferðarþjóð sem býr við gjaldeyrishöft og ógjaldgengan gjaldmiðil, en vill opið hagkerfi og njóta sambærilegra lífskjara og nágrannaþjóðirnar.

Hugmynd sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna getur aldrei gengið upp sem leið til að ákveða stöðu okkar í Evrópu. Það er hrein vegleysa ef þessir flokkar, sem ekki telja hagsmunum þjóðarinnar best borgið með aðild, verða í ríkisstjórn og eiga nauðugir að leiða aðildarviðræður sem þeir hafa enga trú á. Bjarni Benediktsson hefur margsagt að ófært sé að VG leiði samninga um einstök efnisatriði aðildarsamninga, því flokkurinn styðji ekki aðild. Sama hlýtur að eiga við um hann sjálfan. Ef Framsókn og Sjálfstæðisflokkur sitja í ríkisstjórn geta þeir ekki leitt aðildarumsókn með þessum rökum. Ef þjóðin kýs að halda áfram aðildarviðræðum fæli sú niðurstaða því í reynd í sér vantraust á ríkisstjórn gömlu flokkanna og þeir þyrftu að veita minnihlutastjórn Samfylkingarinnar, sem leiddi aðildarviðræðurnar, hlutleysi.

Eina skynsamlega leiðin er að ljúka samningum eins hratt og kostur er undir forystu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn og gefa þjóðinni kost á að kjósa þá strax um þá efnislegu niðurstöðu.

Margir styðja Evrópusambandsaðild en trúa því að það sé hægt að kjósa gömlu loforðaflokkana og halda svo áfram í rólegheitum með aðildarumsóknina. Svo er ekki. Ef Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fá umboð til að gera það sem þeir segjast ætla að gera tökum við ekki upp evru í áratugi.

Því er Samfylkingin tilbúin að leggja alla áherslu á aðildarumsóknina: Við viljum ljúka samningum svo fljótt sem unnt er. Um leið og þeir liggja fyrir viljum við samþykkja frumvarp til breytinga á stjórnarskrá, til að uppfylla skilyrði aðildar og rjúfa þing og leggja allan pakkann – og okkur sjálf – í dóm þjóðarinnar.

Þjóðaratkvæði og þingkosningar í einu.

Það hljóta allir flokkar að geta fallist á.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×