Körfubolti

Meistari með þremur Suðurnesjaliðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverrir Þór var sigursæll sem leikmaður og nú líka sem þjálfari.Fréttablaðið/anton
Sverrir Þór var sigursæll sem leikmaður og nú líka sem þjálfari.Fréttablaðið/anton
Grindavík tryggði sér deildarmeistaratitilinn í Dominos-deild karla á fimmtudagskvöldið þegar liðið vann fimmtán stiga sigur á Fjölni, 97-82. Grindavík hefur unnið 17 af 21 leik á fyrsta tímabili liðsins undir stjórn Sverris Þórs Sverrissonar og er með fjögurra stiga forystu fyrir lokaumferðina sem fer fram á sunnudagskvöldið.

Grindvíkingar hafa þar með unnið deildina tvö ár í röð en þeir fóru alla leið og urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í sextán ár í fyrra. Sverrir Þór tók við Íslandsmeistaraliðinu af Helga Jónasi Guðfinnssyni og fór einnig með liðið í bikarúrslitin ásamt því að stýra liðinu til deildarmeistaratitilsins.

Sverrir Þór hefur þar með unnið deildarmeistaratitilinn með öllum þremur Suðurnesjaliðunum, Keflavík, Njarðvík og nú Grindavík. Þetta er reyndar annar deildarmeistaratitill hans sem þjálfari en Keflavíkurkonur unnu deildina undir hans stjórn veturinn 2004-2005.

Sverrir Þór vann síðan alls fjóra deildarmeistaratitla sem leikmaður, þrjá með Keflavík (2002, 2005 og 2006) og einn með Njarðvík (1996). Hann varð því deildarmeistari í sjötta sinn í Grindavík í fyrrakvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×