Körfubolti

Vilja sýna að þetta borgi sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allt í öllu Elvar Már Friðriksson er fimmtándi stigahæsti leikmaður Dominos-deildarinnar og í 8. sæti í stoðsendingum. Fréttablaðið/valli
Allt í öllu Elvar Már Friðriksson er fimmtándi stigahæsti leikmaður Dominos-deildarinnar og í 8. sæti í stoðsendingum. Fréttablaðið/valli
Það er athyglisvert að skoða leikjatöflu Njarðvíkur í Dominos-deildinni í vetur því liðið hefur algjörlega snúið við blaðinu, vann þrjá af níu fyrstu leikjum sínum en hefur síðan unnið sex af síðustu níu. Einu töpin frá og með 13. desember hafa komið á móti þremur efstu liðunum.

Njarðvíkurliðið er að stórum hluta skipað mjög ungum leikmönnum sem hafa orðið að mönnum á síðustu mánuðum.

Frábærir sigrar á stjörnum prýddum liðum Stjörnunnar og KR á síðustu vikum sýnir þetta svart á hvítu. Liðið hefur nú unnið þrjá sigra í röð og í öllum leikjunum þremur hafa fimm leikmenn liðsins skorað tíu stig eða meira. Liðið skoraði 119 stig á Ísafirði í síðasta leik og þá voru það sex leikmenn sem brutu tíu stiga múrinn.

„Hlutirnir eru að smella núna. Við ætlum okkur að halda áfram á þessu róli. Þetta gekk svolítið brösuglega fyrir jól," segir Elvar Már Friðriksson, hinn ungi leikstjórnandi Njarðvíkur.

Njarðvíkingar byrjuðu tímabilið á dramatískum sigri í framlengingu í Þorlákshöfn en síðan tóku við þrír tapleikir í röð og í framhaldinu var Bandaríkjamaðurinn Jeron Belin látinn fara. Nigel Moore kom í byrjun nóvember og hafði strax góð áhrif á liðið.

„Við fórum í Kanabreytingar og Nigel er búinn að vera að komast betur og betur inn í þetta. Við höfum líka verið að bæta varnarleikinn okkar og það er það sem er að skila okkur þessum sigrum," segir Elvar Már. Nigel Moore hefur verið frábær í febrúar með 22,8 stig, 7,8 fráköst og 6,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

„Það er mjög gott að spila með honum og hann er bara búinn að gera liðinu gott eftir að hann komst inn í þetta. Hann er reynslumikill og er jákvæður gagnvart öllu sem er að gerast hjá okkur. Hann er búinn að hjálpa okkur gríðarlega enda mikill keppnismaður sem vill vinna allt," segir Elvar Már.

Í sérstöðu meðal Íslendinga

Mestu hefur munað um að ungir lykilleikmenn liðsins hafa lært betur að synda í djúpu lauginni. Þar fer Elvar Már fremstur í flokki en hann er eini leikmaðurinn í deildinni, fæddur á Íslandi, sem er inni á topp tuttugu í bæði stigum og stoðsendingum. Justin Shouse hjá Stjörnunni og Darrel Keith Lewis hjá Keflavík ná þessu líka meðal leikmanna deildarinnar sem hafa íslenskt ríkisfang.

„Við ætlum okkur í úrslitakeppnina og við höfum að undanförnu verið að vinna góða sigra í átt að því að komast í hana. Það eru fjórir leikir eftir af deildinni, við ætlum að klára þessa leiki vel og vera pottþétt inni í úrslitakeppninni," segir Elvar Már.

Það eru fjórir mjög ungir leikmenn í stóru hlutverki hjá Njarðvík og þeir hafa allir bætt við sitt meðalskor frá því í fyrstu níu leikjum tímabilsins. Þetta eru þeir Elvar Már, Ágúst Orrason, Ólafur Helgi Jónsson og Maciej Stanislav Baginski sem samtals hafa skorað 13,7 stigum meira í leik í undanförnum leikjum en þeir gerðu í byrjun tímabilsins.

Algjör forréttindi

„Það er styrkleiki okkar að undanförnu hvað það eru margir að skila til liðsins. Fyrr í vetur voru ekki allir að skila sínu en það er lykillinn að bættu gengi okkar að fleiri eru að leggja til í púkkið," segir Elvar en hann og aðrir ungir leikmenn njóta góðs af því að Njarðvíkingar veðjuðu á framtíðarleikmenn liðsins.

„Þetta eru algjör forréttindi. Við ætlum okkur að nýta tækifærið og sýna það að þetta borgar sig," segir Elvar Már.

Elvar Már hefur kannski hækkað sig minnst af umræddum fjórum leikmönnum en hefur skorað 19,0 stig að meðaltali í síðustu níu leikjum liðsins. Það er frábær árangur hjá ekki eldri strák en hann verður 19 ára á árinu.

„Ég er sáttur og tel að það hafi gengið ágætlega hjá mér. Ég reyni bara að bæta mig í hverjum leik. Mér finnst gott að hafa mikla ábyrgð og reyni bara að gera gott úr því. Ef liðinu gengur vel er maður sáttur," segir Elvar.

„Við höfum verið að sýna meiri stöðugleika eftir áramót og verðum að reyna að halda honum. Á síðasta tímabili og fyrir jól var þetta búið að vera svolítið upp og niður hjá okkur. Við vorum kannski að vinna óvænta sigra en skíttöpuðum þar á milli. Nú er að koma stöðugleiki í þetta hjá okkur og þá fer að ganga vel," segir Elvar Már en hann og félagar hans ætla að reyna að hækka sig í töflunni.

Ætla að berjast fyrir sjötta sætinu

„Það er markmiðið að reyna að komast í sjötta sætið. Við erum tveimur stigum á eftir KR en þeir eiga innbyrðisstöðuna á okkur. Við ætlum að berjast fyrir þessu sjötta sæti," segir Elvar Már að lokum. Næsti leikur Njarðvíkurliðsins er á móti Fjölni í Ljónagryfjunni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×