Körfubolti

Bara tvö lið í karlakörfunni hafa ekki rekið Kana í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sylverster Cheston Spicer og Haminn Quaintance hafa báðir verið sendir heim.
Sylverster Cheston Spicer og Haminn Quaintance hafa báðir verið sendir heim. Mynd/Vilhelm
Félagsskiptaglugginn í íslenska körfuboltanum er nú lokaður, sem þýðir að ekkert lið í Dominos-deild karla eða kvenna getur hér eftir bætt við sig eða skipt út bandarískum leikmanni til loka tímabilsins. Nokkur liðanna gerðu breytingar áður en fresturinn rann út um mánaðamótin og eftir þær eru það aðeins tvö af tólf liðum Dominos-deildar karla sem hafa ekki rekið bandarískan leikmann á tímabilinu.

Grindavík og Stjarnan eru nú einu liðin í karladeildinni sem hafa ekki rekið erlendan leikmann og þau hafa reyndar bæði bætt við sig erlendum leikmanni á miðju tímabili. Stjarnan hóf tímabilið með aðeins einum bandarískum leikmanni en bætti við öðrum um áramótin. Þá bættu Grindvíkingar einnig við þriðja erlenda leikmanni sínum þótt aðeins tveir þeirra megi vera inn á vellinum í einum. Grindavík og Stjarnan eru bæði í baráttunni um deildarmeistaratitilinn og mætast í bikarúrslitaleiknum seinna í þessum mánuði.

KFÍ og Fjölnir hafa bæði látið þrjá leikmenn fara en Keflavík, KR, ÍR og Tindastóll hafa öll sent tvo leikmenn heim. Annar ÍR-inganna kom þó aftur og Tindastóll notaði Roburt Sallie aðeins í einn leik áður en hann var látinn fara.

Snæfell og Skallagrímur voru bæði að reka sinn fyrsta mann á dögunum en Þór Þorlákshöfn og Njarðvík skiptu bæði um Bandaríkjamenn fyrir jól og með góðum árangri.

Isacc Miles spilar nú með Fjölni en bæði Tindastóll og ÍR hafa látið hann fara í vetur. Miles hefur leikið tólf leiki í deildinni í vetur og aðeins einu sinni verið í vinningsliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×