Körfubolti

Stórt kvöld í körfunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grindvíkingar komast á toppinn með sigri á heimavelli í kvöld.Fréttablaðið/vilhelm
Grindvíkingar komast á toppinn með sigri á heimavelli í kvöld.Fréttablaðið/vilhelm
Það verða tveir stórleikir í Dominosdeild karla í körfubolta í kvöld þegar fjögur efstu lið deildarinnar mætast innbyrðis í 14. umferðinni. Það hefur lítið skilið á milli efstu liðanna í vetur og á dögunum voru meðal annars öll fjögur efstu liðin með jafnmörg stig. Það er því von á jöfnum leikjum í kvöld.

Grindavík og Þór eru nú jöfn í 1. og 2. sæti með 20 stig hvort félag og Snæfell og Stjarnan eru síðan í 3. til 4. sæti með 18 stig. KR og Keflavík eru síðan jöfn í 5. og 6. sæti með 16 stig en þau mætast í DHL-höllinni annað kvöld.

Grindvíkingar komust í bikarúrslitaleikinn á sunnudaginn og í kvöld komast þeir á topp Dominos-deildar karla með sigri á Þór þegar þeir taka á móti Þorlákshafnarbúum í Grindavík í kvöld. Á sama tíma tekur Stjarnan á móti Snæfelli í Garðabæ. Það eru aðeins fjórir dagar liðnir frá því að Stjörnumenn fóru burtu úr Hólminum með farseðilinn í bikaúrslitaleikinn.

Það eru ekki bara barist um stigin tvö í þessum leikjum því úrslitin hafa einnig áhrif á stöðu liðanna í innbyrðisleikjum. Þór hefur níu stiga forskot á Grindavík í innbyrðisleikjum eftir 92-83 sigur í Þorlákhöfn í október. Snæfell hefur sömuleiðis 16 stiga forskot á Stjörnuna eftir 110-94 sigur í Hólminum í október.

Það eru fleiri lið sem geta haft sætaskipti í þessari umferð því í kvöld mætast einnig liðin í 8. og 9. sæti (Skallagrímur-Fjölnir) og á morgun mætast KFÍ og Tindastóll á Ísafirði en Stólarnir eiga þar möguleika á að komast upp úr fallsæti í fyrsta sinn í langan tíma. Síðasti leikur kvöldsins er síðan á milli íR og Njarðvíkur í Hertz Hellinum í Seljaskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×