Skoðun

Meiri sykur?

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Mörgum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er tíðrætt um að stefna þeirra felist í að „stækka kökuna“. Það er ekki að ástæðulausu að þegar þessir herramenn eru spurðir um hvernig allt verði betra undir þeirra stjórn verða þeir jafnan mjög loðnir í tali og grípa til myndlíkinga. Þessi tiltekna hefur þó þann kost að óvart upplýsir hún allan sannleikann um hvers er von undir stjórn þessara manna.

Endalaust sykurát

Flestum finnast kökur góðar. En að sama skapi vita allir í nútímasamfélagi að kökur eru ekki sérlega holl fæða. Það eru til ýmsar leiðir til lífsgæða en endalaust sykurát er ekki ein þeirra. Pólitík hægrimanna snýst hins vegar um endalaust sykurát. Arðrán á náttúrunni, útsala á auðlindum, bóluhagkerfi þar sem ríkið styrkir getulaus fyrirtæki til að þenja sig út tímabundið, sala ríkiseigna, þetta voru lausnirnar fyrir hrun og sjálfstæðismenn hafa ekkert að bjóða nema áframhald á því sama.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ráku samfélagið á sínum tíma með þeim hætti að það leit út fyrir að hér væri mikill hagvöxtur. En hann reyndist innantómur. Hitaeiningarnar í þessum hagvexti voru aðeins sykur og meiri sykur og hann reyndist vond næring til framtíðar. Nákvæmlega sama er í boði núna. Fleiri álver, meiri einkavæðing, fleiri ríkisstyrkir til einkavina. Það er leitun að stjórnmálaöflum sem hafa orðið sér jafn rækilega til skammar og þeim sem stýrðu Íslandi á fyrsta áratug 21. aldar og eru þó svo bíræfin að mæta aftur til leiks og lofa engu öðru en að endurtaka sama leik, nákvæmlega eins.

Engin bætiefni

Til þess að veita þessum flokkum brautargengi þurfa menn að trúa því býsna ákaft að hér hafi aldrei orðið neitt hrun og engin kreppa heldur. Því að það sem þeir bjóða fram í næstu kosningum eru engin bætiefni heldur innantóm orka. Ekkert annað. Sama neyslupólitíkin og fór með þjóðina á hausinn haustið 2008.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×