Skoðun

Stuðningsgrein: Til stuðnings Árna Páli

Guðfinnur Sveinsson skrifar
Það er ágætis siður að tala með því sem maður velur og ekki gegn því sem maður velur ekki. Það er trúverðugara og betra. Í vali Samfylkingarinnar á nýjum formanni eru tveir góðir og gallalitlir kostir í boði. Hér geri ég grein fyrir vali mínu.

Það er mikilvægt í mínum huga að fyrsti kostur nýs formanns í mögulegri stjórnarmyndun eftir kosningar sé að mynda stjórn til vinstri. Af hverju? Því ég tel líklegast að heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfið verði varið og hér verði stunduð stjórnmál almannahagsmuna og samkenndar með náunganum, sé stjórnin í höndum flokka vinstra megin við miðju. Báðir virðast vera á sömu skoðun, sem betur fer.

Nýr formaður Samfylkingarinnar þarf að vera trúr stefnu flokksins sem er mótuð af flokksmönnum á hverjum tíma. Hann má hafa sínar skoðanir en þegar umræðunni er lokið og við höfum ákveðið okkar stefnu, þá er það hlutverk formannsins að taka stefnu flokksins og bera hana fram fyrir þjóðina á skýran hátt. Hann þarf ekki að vera flokknum sammála í einu og öllu, svo framarlega sem hann sinnir skyldu sinni með því að vera trúr félögum sínum í orðum og verkum.

Leiðtogi þarf að vera hugrakkur. Hann má ekki vera hræddur við sviðsljósið og þarf að þora að stíga fram og taka rökræðuna. Hann þarf að vera mælskur en aðeins á þann hátt að hann geti komið jafnaðarstefnunni skýrt frá sér. Það er allt sem á að gera og allt sem þarf að gera. Restin liggur í höndum kjósenda.

Hverjum manni er hollt að takast á við neitun og styrkur manna kemur best í ljós þegar á móti blæs. Mönnunum eru sett takmörk sem við þurfum að gera okkur grein fyrir og virða. Sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt. Maður sem kann að falla með sæmd en halda samt ótrauður áfram er maður sem við þurfum á að halda. Í pólitík er mikilvægt að hafa sterka og stöðuga fætur, það eru fáir til þess að grípa mann. Og þetta er það allra mikilvægasta því að allir falla einhvern tímann.

Sá sem ég mun kjósa í formannskjöri Samfylkingarinnar er maður sem fyrir mér er góður félagi, maður sem er óhræddur við að takast á við hlutina, en er sanngjarn á sama tíma. Hann er maður sem hefur vaxið í mótvindinum, hefur sterka fætur og hann virðist hafa ótæmandi kraft til þess að halda áfram.

Síðast en ekki síst tel ég hann vera réttsýnan og sannan jafnaðarmann sem mun gera sitt besta til að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfi sem leyfir jafnaðarstefnunni að blómstra.

Ég kýs Árna Pál.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×