Körfubolti

Gasol mögulega á leið frá Lakers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP
Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að möguleiki sé á því að Pau Gasol sé á leið frá LA Lakers í skiptum fyrir Andrew Bynum, leikmann Cleveland Cavaliers.

Lakers virðist ekki líklegt til afreka þetta tímabilið og því munu forráðamenn félagsins skoða leiðir til að skera niður launagreiðslur.

Brotthvarf Gasol myndi þýða að Lakers myndi hætta að greiða lúxusskatt. Það myndi ekki einungis spara liðinu háar fjárhæðir nú heldur einnig á næstu árum þegar nýjar og harðari reglur um lúxusskatt taka gildi.

Frá og með næsta tímabili verður liðum sem hafa greitt lúxusskatt hvert ár síðustu þrjú tímabil á undan gert að greiða enn hærri sektir en áður hefur þekkst.

Lúxusskattur er lagður á lið sem fara yfir fyrirfram ákveðið launaþak NBA-deildarinnar. Lakers hefur greitt þennan lúxusskatt hvert ár síðan 2007.

Kobe Bryant er enn að jafna sig eftir að hann sleit hásin fyrr á þessu ári og þá hefur Steve Nash ekki náð að sýna sínar bestu hliðar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×