Fótbolti

Ancelotti: Ronaldo er fullkominn sóknarmaður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Cristiano Ronaldo bætti met í Meistaradeild Evrópu í gær og uppskar fyrir það mikið hrós þjálfara síns.

Ronaldo skoraði annað marka Real Madrid í 2-0 sigri á FC Kaupmannahöfn og skoraði því alls níu mörk í riðlakeppninni þetta árið. Gamla metið var átta mörk en þeir Hernan Crespo, Zlatan Ibrahimovic, Filippo Inzaghi og Ruud van Nistelrooy deildu því.

Carlo Ancelotti er stjóri Real Madrid en Inzaghi spilaði undir hans stjórn hjá AC Milan á sínum tíma. Ancelotti þjálfaði einnig Ibrahimovic hjá PSG.

„Ég held að Inzaghi verði ekki ánægður því hann er nú búinn að missa metið,“ sagði Ancelotti.

„Inzaghi var mjög öflugur í teignum og Ibrahimovic er kraftmikill leikmaður sem hefur ótrúlega hæfileika til að skora og leggja upp mörk. En Cristiano er fullkominn sóknarmaður sem getur skorað mörk í öllum regnbogans litum.“

Ronaldo brenndi meira að segja af vítaspyrnu í leiknum. „Hann var reiður út af því en hann skoraði mikilvægt mark og spilaði mjög vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×