Körfubolti

Jón Halldór skiptir um kana hjá kvennaliði Grindavíkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lauren Oosdyke.
Lauren Oosdyke. Mynd/Daníel
Lauren Oosdyke mun ekki klára tímabilið með liði Grindavíkur í Dominos-deild kvenna í körfubolta en Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari liðsins staðfesti við karfan.is að félagið hafi sagt upp samningi hennar.

Jón Halldór segir Lauren Oosdyke vera fórnarlamb breyttra aðstæðna hjá Grindavík en meiðsli og annað hefur breytt leikmannahópi hans. „Ég tel að ég þurfi annarskonar týpu af leikmanni fyrir „seinni hálfleik. " sagði Jón Halldór í samtali við karfan.is og vísaði þar í meiðsli Pálínu Gunnlaugsdóttir og fjarveru Petrúnellu Skúladóttur sem er barneignarfríi í vetur.

Jón Halldór var ekki lengi að finna annan leikmann en Bianca Lutley mun taka við hlutverki Oosdyke í liði Grindavíkur samkvæmt sömu frétt á karfan.is.

Lauren Oosdyke var með 18,1 stig og 10,9 fráköst að meðaltali í leik en skoraði aðeins sex stig á 24 mínútu í lokaleik sínum þegar Grindavíkurliðið tapaði með 20 stigum á móti KR. Grindavík hefur aðeins unnið 1 af 4 leikjum sínum eftir að Pálína Gunnlaugsdóttir meiddist.

Bianca Lutley er 22 ára gamall bakvörður en hún útskrifaðist úr Louisiana State háskólanum síðasta vor. Lutley var með 10,2 stig, 4,1 frákast og 3,1 stoðsendingu að meðaltali í leik á lokaári sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×