Innlent

Blaðamannafundur vegna skotárásar í Árbæ

Haukur Viðar Alfreðsson og Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Ríkislögreglustjóri og Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafa boðað til blaðamannafundar vegna atburðanna í Árbæ í nótt og í morgun.

Lögreglan var kölluð út að Hraunbæ um þrjúleytið í nótt þegar 59 ára karlmaður hóf að skjóta af byssu út um glugga. Þegar lögreglan kom á vettvang skaut maðurinn á hana. Skot gengu á milli lögreglunnar og mannsins fram eftir nóttu. Að lokum var maðurinn yfirbugaður og lést hann af skotsárum skömmu eftir komuna á bráðamóttöku Landspítalans.

Fundurinn hefst klukkan 11 og verður í beinni útsendingu hér á Vísi og á Bylgjunni.

Uppfært kl. 11:00

Fundurinn er sagður hefjast eftir fáeinar mínútur.

Uppfært kl. 11:12

„Við höfum sett okkur í samband við innanríkisráðherra vegna atviksins sem á sér ekki fordæmi á Íslandi og Ríkissaksóknara,“ segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.

Stefán Eiríksson tók til máls og greindi nánar frá atburðarásinni, en tilkynning barst klukkan þrjú frá nágrönnum um þrjúleytið í nótt um hávaða og hvelli.

„Þegar lögreglan reynir að hafa samband við íbúann koma engin svör frá honum. Sérsveitarmenn fara inn í íbúðina og þá er skotið á þá. Skot lenti í hlífðarskildi eins lögreglumannanna sem féll í kjölfarið niður stiga og dró lögregla sig þá til baka. Íbúðir voru rýmdar og þeim aðgerðum lauk um klukkan fimm í nótt. Allt tiltækt lögreglulið var sent á vettvang. Reynt var að yfirbuga hann með beitingu gasvopna sem bar ekki árangur. Þá hóf maðurinn að skjóta út um glugga á íbúðinni og þá var ákveðið að ráðast inn. Þá gerist það að hann skýtur á ný að lögreglumönnunum í höfuð eins sérsveitarmannanna, en hann var með hjálm og sakaði ekki.“

Stefán segir lögreglumennina tvo hafa meiðst lítillega en búnaður hafi komið í veg fyrir frekari áverka.

Uppfært kl. 11:16

Lögreglan getur ekki svarað því hvort hún hafi þurft að hafa afskipti af manninum áður eða hvort hann sé á sakaskrá.

Uppfært kl. 11:19

Lögreglan réðst inn og skaut manninn og yfirbugaði hann. Þetta er í fyrsta sinn sem maður deyr af völdum skotvopna í átökum við lögreglu. Maðurinn var vopnaður haglabyssu, ekki er hægt að upplýsa um hvort hann sé skráður fyrir henni sjálfur.

Ekki er hægt að upplýsa um hvort annar maður var í íbúðinni með manninum, en á þessu stigi er hann einn grunaður um aðild að málinu.

Lögreglan segir íbúa hafa verið í mikilli hættu meðan á þessu stóð. Ekki þótti ástæða til að rýma fleiri stigaganga.

Uppfært kl. 11:21

Milli 15 til 20 lögreglumenn komu að málinu og síðan sérsveitarmenn að auki.

Ríkissaksóknari mun rannsaka málið héðan í frá og kallar þá til sem þarf. Ekki hægt að upplýsa um af hversu mörgum skotum var hleypt í íbúðinni, hvorki af hendi lögreglu eða mannsins.

Lögreglumenn sem komu að málinu hafa fengið áfallahjálp frá sálfræðingi lögreglunnar og munu fá frekari hjálp í framhaldinu.

Uppfært kl. 11:23

Einn sérsveitarmanna fékk skot í hjálm og andlit, annar í vesti og hönd.

Ekki er vitað hvað manninum gekk til, ekki er heldur hægt að svara hvort hann var undir áhrifum áfengis eða vímuefna.

Uppfært kl. 11:25

Stefán Eiríksson segir sína menn hafa brugðist hárrétt við í upphafi og fengið sérsveitina með sér.

Stefán segir að fyrsta tilkynningin hafi borist klukkan þrjú, aðeins ein hafi borist, þó fleiri kunna að hafa hringt inn.

Uppfært kl. 11:27

Lögreglan kom upp sjónpóstum, lögreglumönnum sem horfðu inn í íbúðina úr fjarlægð til að staðsetja manninn í íbúðinni.

Lögreglan notar 9mm skotvopn. Hefðbundin lögregluskotvopn eru skammbyssur og hríðskotabyssur.

Uppfært kl. 11:31

Haraldur segir að vinnureglan sé sú að skotvopn lögreglumannanna hafi verið tekin til hliðar vegna rannsóknar ríkissaksóknara.

Allir sérsveitarmenn eru enn við störf og hafa fengið ný vopn. Hluti af sérsveitinni er þjálfaður í notkun riffla og þeir manna sjónpóstana, eru með bestu sjónaukana, ekki gefið upp hvort þeir skutu.

Engir lögreglumenn fara í frí eftir atburðinn. Þeir munu halda áfram störfum nema þeir óski eftir öðru. Ekkert sem bendir til þess að neinn hjá lögreglunni hafi hegðað sér með öðrum hætti en sem vera ber segir Haraldur.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóri munu ekki tjá sig frekar um málið eftir þennan fund meðan rannsókn ríkissaksóknara stendur yfir.

Uppfært kl. 11:32

Fundinum er lokið.

Uppfært kl. 12:45

Nú er hægt að horfa á upptöku af blaðamannafundinum í heild sinni hér fyrir ofan og á Vísir Sjónvarp. Einnig er að finna styttri upptöku af fundinum á Vísir Útvarp.


Tengdar fréttir

Íbúi við Hraunbæ: Heyrði um fimmtíu skot

„Það voru fjörutíu löggur fyrir utan. Ég hafði engar áhyggjur af þessu,“ segir íbúi við Hraunbæ, þar sem lögregla yfirbugaði byssumann í morgun.

Umsátursástand í Árbæ - skotið á lögreglumenn

Umsátursástand er í Árbæjarhverfi í Reykjavík þar sem maður virðist hafa skotið af byssu. Allt tiltækt lið lögreglu er á staðnum og hefur verið opnuð fjöldahjálparmiðstöð fyrir íbúa á svæðinu sem hafa verið látnir yfirgefa heimili sín. Maðurinn virðist staddur í blokk í Hraunbænum. Stóru svæði í hverfinu hefur verið lokað.

Myndband: Lögreglumenn skjóta á íbúð mannsins

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá sérsveitarmenn frá lögreglunni þegar aðgerðin í Árbæ stóð sem hæst. Meðal annars sést hvar lögreglumenn skjóta að því er virðist reyk- eða táragassprengjum inn í íbúð mannsins sem hafði lokað sig af í íbúð sinni.

Búið að yfirbuga manninn

Búið er að yfirbuga manninn sem skaut af byssu við Árbæ í morgun og er búið að aflétta lokun sem var í stórum hluta hverfisins. Lögreglan tilkynnti íbúum sem höfðu verið fluttir í Árbæjarkirkju þetta nú fyrir skömmu. Ekki er vitað hvort maðurinn sé særður.

„Hann er að koma út“

Nágrannar byssumannsins í Hraunbæ fylgdust með þegar sjúkrabílar fluttu hann á brott.

Árbæjarkirkja veitti 10 manns áfallahjálp

"Það er óhætt að segja að þetta hafi verið óvenjulegt morgunverk og óskemmtilegt,“ segir sóknarprestur í Árbæjarkirkju sem tók á móti íbúum í stigagangi byssumannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×