Innlent

Sorgarsaga byssumannsins – ógnaði lögreglu í Noregi með byssu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Maðurinn sem lést í dag eftir skotbardaga við lögreglu hafði átt við langvarandi geðræn vandamál að stríða og var í mikilli neyslu vímuefna undanfarin ár, samkvæmt heimildum fréttastofu. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu, bæði á Íslandi og í Noregi.

Í dómsskjölum kemur fram að maðurinn kom til landsins í fylgd norsku lögreglunnar árið 1982. Þá hafði honum verið vísað frá Noregi ævilangt vegna þjófnaðarmála.

Í gæsluvarðhald á Íslandi 1982

Maðurinn var síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald á Íslandi árið 1982 vegna gruns um stórfellda þjófnaði hér á landi, meðal annars á bifreið og samtals 44 þúsund krónum í gjaldeyri og ávísunum. Í dómsskjölum kemur fram að við yfirheyrslur hafi maðurinn ekki fengist til að svara spurningum lögreglu eða dómara nema með útúrsnúningum.

Rannsókn málsins var þá á algeru frumstigi og taldi dómurinn hættu á maðurinn myndi spilla sakargögnum ef hann héldi óskertu frelsi sínu, meðal annars með að skjóta undan munum eða gögnum er brotin vörðuðu. Þá var ekki kunnugt um dvalarstað mannsins og ekki var séð að hann gæti haft möguleika á að hafa löglega ofan af fyrir sér.

Sneri aftur til Noregs

Þrátt fyrir að hafa verið settur í ævilangt bann frá Noregi virðist maðurinn engu að síður hafa snúið þangað aftur, því að í febrúar árið 1986 var hann ákærður fyrir tilraun til manndráps og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Auk þess var hann ákærður fyrir meðferð eiturlyfja, innbrot og þjófnaði í Ósló og nágrenni.

Maðurinn hafði verið handtekinn við innbrot í norðurhluta Óslóar í október árið 1985 en þegar lögregla kom að honum dró hann upp sjálfvirka skammbyssu og beindi að henni.

Yfirmaður fíkniefnadeildar Óslóarborgar sagði í samtali við Tímann á sínum tíma að fíkniefni hefðu fundist á manninum og hundrað þúsund norskar krónur í hinum ýmsu gjaldmiðlum, þó aðallega í norskum og sænskum krónum.

Skammbyssan sem tekin var af manninum var sjálfvirk af þýskri gerð og var henni stolið í innbroti í Drammen árið 1981.

Þungar refsingar í Noregi

Í frétt Tímans segir að sé litið til þess hversu þungar refsingar norsk refsilöggjöf segir til um, þegar um er að ræða brot jafn alvarleg og maðurinn var ákærður fyrir, sé ljóst að hann hafi átt yfir sér þungan dóm.

Maðurinn var sagður hafa verið mjög ósamvinnuþýður og var snemma sendur á „sérstaka stofnun fyrir þrákálfa, þar sem hann neitaði að nærast,“ eins og segir í Tímanum.

Þaðan var hann síðan sendur í fangelsi í Ósló, þar sem hann beið framhalds máls síns.

Maðurinn hafði ekkert sagt við yfirheyrslur hjá norsku lögreglunni.


Tengdar fréttir

Skotum rigndi yfir sérsveitarmenn - hitti einn í höfuðið

Byssumaðurinn í Hraunbænum lét skotum rigna yfir sérsveitarmenn lögreglunnar þegar þeir gerðu tilraun til að ryðjast inn í íbúðina. Lögreglan harmar atburðinn og vill koma innilegum samúðarkveðjum til ættingja mannsins.

Íbúi við Hraunbæ: Heyrði um fimmtíu skot

„Það voru fjörutíu löggur fyrir utan. Ég hafði engar áhyggjur af þessu,“ segir íbúi við Hraunbæ, þar sem lögregla yfirbugaði byssumann í morgun.

Umsátursástand í Árbæ - skotið á lögreglumenn

Umsátursástand er í Árbæjarhverfi í Reykjavík þar sem maður virðist hafa skotið af byssu. Allt tiltækt lið lögreglu er á staðnum og hefur verið opnuð fjöldahjálparmiðstöð fyrir íbúa á svæðinu sem hafa verið látnir yfirgefa heimili sín. Maðurinn virðist staddur í blokk í Hraunbænum. Stóru svæði í hverfinu hefur verið lokað.

Myndband: Lögreglumenn skjóta á íbúð mannsins

Á meðfylgjandi myndskeiði má sjá sérsveitarmenn frá lögreglunni þegar aðgerðin í Árbæ stóð sem hæst. Meðal annars sést hvar lögreglumenn skjóta að því er virðist reyk- eða táragassprengjum inn í íbúð mannsins sem hafði lokað sig af í íbúð sinni.

Byssumaðurinn á Landspítalanum

Maðurinn sem var yfirbugaður í Árbænum í morgun liggur nú á Landspítalanum. Upplýsingar um líðan hans fást ekki að svo stöddu, að sögn vakthafandi læknis. Hann staðfestir þó í samtali við fréttastofu að hann sé á spítalanum. Nágrannar segja líklegt að maðurinn sé særður, þar sem blóð sjáist á vettvangi.

Búið að yfirbuga manninn

Búið er að yfirbuga manninn sem skaut af byssu við Árbæ í morgun og er búið að aflétta lokun sem var í stórum hluta hverfisins. Lögreglan tilkynnti íbúum sem höfðu verið fluttir í Árbæjarkirkju þetta nú fyrir skömmu. Ekki er vitað hvort maðurinn sé særður.

„Hann er að koma út“

Nágrannar byssumannsins í Hraunbæ fylgdust með þegar sjúkrabílar fluttu hann á brott.

Skaut tvo lögreglumenn

Einn lögreglumaður særðist í aðgerðum lögreglunnar og sérsveitar ríkislögreglustjóra í Hraunbæ í Árbæ í morgun. Hinn slapp með skrekkinn.

Árbæjarkirkja veitti 10 manns áfallahjálp

"Það er óhætt að segja að þetta hafi verið óvenjulegt morgunverk og óskemmtilegt,“ segir sóknarprestur í Árbæjarkirkju sem tók á móti íbúum í stigagangi byssumannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×