Innlent

Afhverju var þessi maður með byssu?

Kristján Már Unnarsson skrifar
Tvær dagmömmur, sem voru meðal nágranna skotmannsins, segja að eitthvað mikið sé að kerfinu þegar fársjúkur maður fær íbúð innan um barnafjölskyldur. Þær spyrja hvernig standi á því að svona maður hafi byssu undir höndum. Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við dagmömmurnar Kristbjörgu Jónsdóttur og Guðrúnu Jensdóttur. Þær eru með samtals tíu börn í daggæslu, hvor með fimm.

„Ég skil ekki hvað þetta batterí er að hugsa að setja svona veikan mann inn í þetta hverfi, bara út af börnunum okkar,“ segir Kristbjörg. „Maður verður reiður. Strákarnir okkar fara út á hverjum degi, í skólann, og við út með litlu börnin.“

Guðrún Jensdóttir, hin dagmamman, lýsir sömu skoðun.

Kristbjörg spyr hversu mikið hafi verið fylgst með manninum. „Afhverju var hann með byssu? Það er eitthvað mikið sem ekki er í lagi hérna.“

Hún segir sökina á því sem gerðist vera kerfinu að kenna. „Það er þeim að kenna. Ekki manninum eða neinum öðrum. Bara þessu heilbrigðiskerfi okkar á Íslandi. Það er það sem hefur brugðist honum og þau sem áttu að hugsa um þennan mann. Það er mjög alvarlegt,“ segir Kristbjörg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×