Sport

Bjargaði lífi konu sem reyndi að svipta sig lífi

Heimavöllur Oakland Raiders.
Heimavöllur Oakland Raiders.
Óhugnalegur atburður átti sér stað á heimavelli Oakland Raiders um síðustu helgi. Þá reyndi kona að svipta sig lífi á vellinum. Atvikið átti sér stað eftir leik Oakland og Tennessee. Konan var á efstu hæð stúkunnar og ætlaði að kasta sér niður á þá næstu en það er talsvert mikið fall.

Nokkur fjöldi fólks fyrir neðan reyndi að tala konuna til en hún lét ekki segjast og lét sig falla. Maður fyrir neðan hana gerði sér lítið fyrir og tók fallið af henni með þeim afleiðingum að þau skullu bæði harkalega í steypuna.

"Ég vildi að ég hefði gripið hana og haldið henni. Ég hefði ekki getað lifað með sjálfum mér ef ég hefði ekki gert neitt," sagði hinn 61 árs gamli hermaður, Donnie Navidad, sem bjargaði lífi konunnar.

"Málið er ekkert flókið. Hann bjargaði lífi hennar. Ef hann hefði ekki gripið hana þá væri hún dáin," sagði lögreglustjórinn á svæðinu.

Konan er illa haldin á gjörgæsludeild en Navidad er illa marinn á handlegg en er kominn heim til sín af sjúkrahúsi.

Hann stóð ekki beint undir konunni er hún féll heldur kastaði hann sér undir hana.

"Fólk vill kalla mig hetju en hvernig skilgreinirðu hetju? Ég hefði gert þetta fyrir hvern sem er."

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×