Sport

Sjálfsmark réð úrslitum í NFL-deildinni í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cameron Wake fagnar.
Cameron Wake fagnar. Mynd/NordicPhotos/Getty
Það er ekki á hverjum degi sem varnarmenn tryggja sínu liði sigur með því að fella leikstjórnanda mótherjanna í þeirra eigin markteig en það var raunin í NFL-deildinni í nótt. Miami Dolphins vann þá 22-20 sigur á Cincinnati Bengals í framlengingu þökk sé hraustlegri framgöngu eins varnarmannsins síns.

Varnarmaðurinn Cameron Wake tryggði Miami Dolphins sigurinn í framlengingunni með því að brjótast í gegnum varnarmúrinn í kringum Andy Dalton, leikstjórnanda Cincinnati Bengals og ná í framhaldinu að fella Dalton í hans eigin markteig.

Sjálfsmark í NFL-deildinni gefur 2 stig en það lið sem skorar á undan í framlengingu vinnur leikinn svo framarlega sem bæði lið hafa fengið sókn. Þessi tvö stig nægðu því Miami Dolphins til að vinna fjórða sigur sinn á tímabilinu.

Þetta var aðeins í þriðja sinn í sögu NFL-deildarinnar sem leikur vinnst á sjálfsmarki. Chicago Bears vann einnig þannig árið 2004 og það gerðu leikmenn Minnesota Vikings einnig í einum leik árið 1989.

Cameron Wake er 31 árs gamall reynslubolti og var þarna að komast að Andy Dalton í þriðja sinn í leiknum. Wake hefur spilað með Miami Dolphins frá 2009.

Það voru fleiri frábær tilþrif í leiknum þar á meðal magnað snertimark hlauparans Giovani Bernard. Það er hægt að sjá svipmyndir frá leiknum hér fyrir neðan.



NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×