Körfubolti

Keflavíkurkonur með sjöunda sigurinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Porsche Landry.
Porsche Landry. Mynd/Daníel
Keflavík er komið með fjögurra stiga forskot á toppi Dominos-deildar kvenna í körfubolta eftir eins stigs sigur á Snæfelli í kvöld, 69-68, í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar í Stykkishólmi.

Snæfellsliðið var búið að vinna fimm leiki í röð og það var því ljós að önnur hvor sigurgangan myndi enda í Hólminum. Leikurinn var æsispennandi en gestirnir úr Keflavík voru sterkari á lokasprettinum.

Porsche Landry var með 26 stig og 8 stoðsendingar en hún spilaði allar 40 mínúturnar í leiknum alveg eins og Hildur Sigurðardóttir, fyrirliði Snæfells. Bryndís Guðmundsdóttir var líka mjög öflug hjá Keflavík með 18 stig og 12 fráköst og Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 11 stig.

Hildur Sigurðardóttir var með 20 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar hjá Snæfelli og Chynna Unique Brown var með 15 stig og 10 fráköst. Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði 11 stig.

Keflavík vann fyrsta leikhlutann 20-15 en Snæfell svaraði með því að vinna annan leikhlutann 22-17 og staðan var því 37-37 í hálfleik.

Hildur Sigurðardóttir skoraði fyrstu þrjú stig seinni hálfleiks en Keflavík náði strax frumkvæðinu og leiddi 57-52 fyrir lokaleikhlutann.

Keflavík var skrefinu á undan í fjórða leikhlutanum og Sara Rún Hinriksdóttir skoraði mikilvæga körfu þegar hún kom Keflavík í 67-62 með því að smella niður þriggja stiga skoti þegar 105 sekúndur voru eftir.

Snæfelli minnkaði muninn í 65-67 en Porsche Landry svaraði þá með körfu. Chynna Unique Brown skellti niður þristi í blálokin en nær komust heimastúlkur ekki og Keflavík fangaði sjöunda sigri sínum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×