Sport

Jacksonville Jaguars gæti spilað leik á Craven Cottage

Shahid Khan.
Shahid Khan.
Milljónamæringurinn Shahid Khan á bæði enska úrvalsdeildarfélagið Fulham og NFL-liðið Jacksonville Jaguars. Hann íhugar nú ákveðið samstarf milli félaganna sinna.

Jaguars spilar leik á Wembley-leikvanginum næsta sunnudag og hefur skuldbundið sig til að gera slíkt hið sama næstu fjögur ár.

"Það er mjög mikill munur á þessum tveimur íþróttafélögum. Á Englandi fara lið upp og niður deildir en það er ekkert slíkt í NFL-deildinni," sagði Khan og kannski sem betur fer því þá væri Jaguars-liðið löngu fallið.

"Það er hægt að byrja upp á nýtt í NFL en það er ekki hægt hér. Það er hægt að breyta menningu liðsins og leikmönnunum í NFL en erfiðara hérna."

Það hefur verið talsvert í umræðunni upp á síðkastið að London eignist sitt eigið lið í deildinni. Þar sem Jaguars verður "London-liðið" næstu árin og eigandinn með sterk tengsl á Englandi er því eðlilega velt upp hvort Jaguars muni flytja til Englands.

"Við erum mjög spenntir fyrir því að spila í London næstu árin en það er allt of snemmt að pæla í því hvort við flytjum liðið."

Leikir í NFL-deildinni eru spilaðir á mun stærri völlum en Craven Cottage, heimavelli Fulham. Engu að síður er Khan spenntur fyrir því að láta Jaguars spila leik þar.

"Það er allt mögulegt og kannski endum við með því að spila leik hér. Það yrði eins og leikur í framhaldsskóla. Lítill völlur og áhorfendur mjög nálægt vellinum. Það gæti orðið skemmtilegt."

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×