Fótbolti

Kristinn Jakobs dæmdi víti í uppbótartíma og Swansea missti af sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Jakobsson.
Kristinn Jakobsson. Mynd/Daníel
Swansea var nokkrum sekúndum frá því að fagna sigri í þriðja Evrópuleiknum í röð í kvöld en velska liðið fékk á sig vítaspyrnu í uppbótartíma þar sem Djibril Cissé tryggði rússneska liðinu Kuban Krasnodar 1-1 jafntefli.

Kristinn Jakobsson dæmdi réttilega vítaspyrnu í uppbótartíma leiksins þar sem varamaðurinn Ibrahima Baldé var felldur. Þetta var fyrsta mark og fyrsta stig Kuban Krasnodar í Evrópudeildinni.

Swansea-liðið gat samt þakkað íslenska dómaranum fyrir það að lenda ekki manni færri strax í fyrri hálfleiknum og þá voru Rússarnir mjög sprækir fyrir hálfleik þótt að það hafi ekki skilað þeim marki.

Michu skoraði mark Swansea á 68. mínútu eftir undirbúning þeirra Alejandro Pozuelo og Jonjo Shelvey og það leit allt út fyrir að það yrði sigurmarkið.

Kristinn Jakobsson dæmdi leikinn engu að síður mjög vel en það er hætt við því að hann verð samt dæmdur af þessu umdeilda atviki í fyrri hálfleiknum.

Kristinn hefði auðveldlega getað rekið Swansea-manninn Dwight Tiendalli af velli í fyrri hálfleik þegar hann togaði niður Lorenzo Melgarejo sem var að sleppa í gegn. Kristinn gaf hinsvegar bara gult spjald og lærisveinar Michael Laudrup sluppu með skrekkinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×