Sport

Bandaríska hnefaleikasambandið kvartar yfir Tyson

Mike Tyson.
Mike Tyson.
Mike Tyson er búinn að gerast umboðsmaður fyrir hnefaleikakappa og er þegar kominn á svarta listann hjá bandaríska hnefaleikasambandinu.

Sambandið hefur nú sakað Tyson um að hrifsa frá sér unga hnefaleikakappa sem sambandið ætlar sér að tefla fram á Ólympíuleikunum eftir þrjú ár.

Formaður sambandsins hefur meðal annars skrifað Tyson opið bréf. Þar segist sambandið ekki geta keppt við peninga Tyson en biðlar til hans að setja þessa peninga frekar í að styrkja uppbyggingu hnefaleikanna í Bandaríkjunum.

"Þegar þessir strákar hafa síðan unnið gull á Ólympíuleikunum þá er alltaf hægt að gera við þá atvinnumannasamning," segir meðal annars í bréfinu.

Tyson er nýbúinn að semja við Erickson Lubin sem vann tvö gull á Ólympíuleikum ungmenna. Hann skrifaði undir hjá Tyson á 18 ára afmælisdaginn sinn. Lubin átti að slá í gegn á ÓL í Ríó en ekkert verður væntanlega af því.



Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×