Fótbolti

Ronaldo skoraði tvö í hundraðasta Evrópuleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Mynd/NordicPhotos/Getty
Cristiano Ronaldo skoraði tvö mörk þegar Real Madrid vann 4-0 sigur á liði Ragnars Sigurðssonar og Rúriks Gíslasonar á Santiago Bernabéu í Meistaradeildinni í fótbolta í kvöld. Ronaldo lék þarna sinn hundraðasta Evrópuleik og hélt upp á það með stæl en Ángel di María skoraði einnig tvennu fyrir spænska liðið í kvöld.

Ragnar og Rúrik voru báðir í byrjunarliði danska liðsins og spiluðu allan leikinn. Leikmenn FCK áttu litla möguleika á móti spænska stórliðinu enda er það einstaklega erfitt að stoppa menn eins og Cristiano Ronaldo.  

Cristiano Ronaldo skoraði fyrsta mark leiksins á 21. mínútu þegar Johan Wiland, markvörður FCK, missti af fyrirgjöf Marcelo og Ronaldo þakkaði fyrir og skallaði boltann í tómt markið.

Króatíski landsliðsmaðurinn Luka Modric fékk gult spjald rétt fyrir leikhlé fyrir brot á Rúriki Gíslasyni. Ragnar Sigurðsson átti skömmu áður skalla rétt framhjá.

Ronaldo bætti við öðru marki sínu á 65. mínútu, aftur með skalla en núna eftir sendingu frá Argentínumanninum Ángel di María. Ángel di María skoraði síðan sjálfur þriðja markið aðeins sex mínútum síðar.

Ángel di María skoraði síðan fjórða og síðasta mark Real í uppbótartíma þegar hann gabbaði Ragnar Sigurðsson niður í teignum og skoraði af mikilli yfirvegun.

Cristiano Ronaldo skoraði þrennu í fyrsta leiknum og er því komin með fimm mörk eftir aðeins tvo leiki í Meistaradeildinni á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×