Körfubolti

Brooklyn Nets braut ekki reglur þegar liðið samdi við Kirilenko

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrei Kirilenko.
Andrei Kirilenko. Mynd/NordicPhotos/Getty
Rússinn Andrei Kirilenko samdi í sumar við Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta en hann spilaði síðast með liði Minnesota Timberwolves. Kirilenko átti kost á því að gera nýjan og miklu hagstæðari samning við Minnesota en valdi frekar að fara til Brooklyn Nets fyrir miklu minni pening.

Andrei Kirilenko gerði eins árs samning við Brooklyn Nets sem mun gefa honum 3,1 milljón dollara (377 milljónir íslenskra króna) en Minnesota Timberwolves bauð honum um tíu milljónir dollara. Kirilenko fórnaði því um 850 milljónum íslenskra króna til að fá að spila fyrir Brooklyn Nets.

Bandarískir fjölmiðlar gerðu strax mál úr þessu og margir fóru að velta því fyrir sér hvort Andrei Kirilenko væri hugsanlega að fá borgað undir borðið frá landa sínum og eiganda Brooklyn Nets, Mikhail Prokhorov.

Forráðamenn NBA-deildarinnar könnuðu málið og hafa nú komist að því að Brooklyn Nets hafi ekki brotið neinar reglur.

Andrei Kirilenko fær ekki bara peninga fyrir að spila með Brooklyn Nets því hann mun spila þar fyrir Jason Kidd og við hlið stjörnuleikmanna á borð við Kevin Garnett, Paul Pierce, Deron Williams og Joe Johnson. Hvort þeir eigi möguleika á því að veltqa NBA-meisturum NBA af stalli er önnur saga.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×