Enski boltinn

Juan Mata orðaður við bæði Liverpool og PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Mata
Juan Mata Mynd/NordicPhotos/Getty
Juan Mata, 25 ára miðjumaður Chelsea, gæti verið á förum frá félaginu en enskir, franskir og spænskir fjölmiðlar hafa verið að hlera ýmislegt um Spánverjann á síðustu klukkutímum.

Franska blaðið L'Equipe segir meðal annars frá því að Paris St-Germain ætli að reyna að krækja í leikmanninn og útvarpsstöð spænska stórblaðsins Marca hefur heimildir fyrir því að Chelsea hafi hafnað 30 milljón punda tilboði í Mata.

Það er margt sem bendir til þess að Mata sé frekar á leiðinni til PSG en til Liverpool. Liverpool er þegar búið að fá Victor Moses frá Chelsea og PSG virðist búið að missa af Mesut Özil til Arsenal

Juan Mata var í stóru hlutverki hjá Chelsea undanfarin tvö tímabil (18 mörk og 33 stoðsendingar í 69 leikjum í ensku úrvalsdeildinni) en Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea í dag, hefur lítið getað notað hann til þessa á tímabilinu. Mata vill því örugglega komast þangað þar sem hann fær að spila sama hlutverk og "áður fyrr" hjá Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×