Innlent

Framleiddu útivistarfatnað og létu hann líta út fyrir að vera íslenskan

Valur Grettisson skrifar
Ferðamenn kaupa oft útivistarfatnað. Myndin er úr safni.
Ferðamenn kaupa oft útivistarfatnað. Myndin er úr safni.
Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið Drífa, sem selur meðal annars lopahúfur og vettlinga í verslunum víða um land undir vörumerkjunum ICEWEAR og NORWEAR, hafi brotið gegn lögum um eftirliti með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Að mati Neytendastofu gáfu merkingar á fötunum ranglega til kynna að um íslenska vöru og íslenska framleiðslu væri að ræða.

Engar upplýsingar væru hinsvegar að finna á vörunum eða merkingum þeirra sem gæfu til kynna að vörurnar væru ekki íslenskar.

Stofnunin taldi því merkingar á vörunum villandi gagnvart neytendum og til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn og því brot gegn fyrrnefndum lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Hefur Neytendastofa því bannað Drífu notkun merkinganna án þess að uppruni vörunnar komi skýrt fram.

Verði ekki orðið við banninu má fyrirtækið búast við því að tekin verði ákvörðun um sektir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×