Körfubolti

Fékk nýjan sjö milljarða samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Pekovic.
Nikola Pekovic. Mynd/NordicPhotos/Getty
Svartfellingurinn Nikola Pekovic skrifaði í gær undir nýjan fimm ára samning við Minnesota Timberwolves í NBA-deildinni í körfubolta en þessi 27 ára og 211 sm miðherji sló í gegn á síðustu leiktíð með Timberwolves-liðinu.

Pekovic var með 16,3 stig og 8,8 fráköst að meðaltali á síðustu leiktíð og það skilaði honum flottum samningi en hann fær rúmlega 7,2 milljarða íslenskra króna fyrir þessi fimm ár.

Glöggir muna kannski eftir því þegar Nikola Pekovic kom til Íslands með landsliði Svartfjallalands og spilaði í Laugardalshöllinni 17. september 2008.

Nikola Pekovic var þá með 11 stig og 7 fráköst á aðeins 16 mínútum í 80-66 sigri. Hann var síðan með 17 stig og 10 fráköst á 18 mínútum í seinni leiknum úti í Svartfjallalandi sem hans menn unnu 102-58.

Nikola Pekovic hækkar sig verulega í launum með þessum nýja samningi en hann fékk 1,6 milljarða fyrri fyrstu þrjú tímabilin sín með Minnesota Timberwolves. Áður en hann fór í NBA þá lék hann með Partizan Belgrad og Panathinaikos.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×