Sport

Ríkissjóður styrkir Anítu um átta milljónir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi í morgun að styrkja Afrekssjóð ÍSÍ aukalega um tvær milljónir króna árlega fram að Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016.

Fram kemur í tilkynningu forsætisráðuneytis að peningurinn sé ætlaður til að styðja við Anítu Hinriksdóttur, nýkrýndan heims- og Evrópumeistara ungmenna í 800 m hlaupi.

Aukafjárveitingin verður samtals átta milljónir en Aníta verður tvítug þegar að Ólympíuleikarnir fara fram í Ríó.

„Má telja að að nú sem aldrei fyrr sé mikilvægt að auka fjárhagslegan stuðning íslenska ríkisins í Afrekssjóð ÍSÍ. Afreksíþróttastarf er kostnaðarsamt og mikilvægt að styðja við bakið á Anítu svo hún geti helgað sig æfingum og keppni til undirbúnings þátttöku á alþjóðlegum stórmótum,“ segir í tilkynningunni.

Úthlutanir Afrekssjóðs ÍSÍ eru fyrst og fremst ætlaðar til að endurgreiða afreksíþróttamönnum sem fá úthlutað úr sjóðnum útlagðan kostnað í tengslum við æfinga- og keppnisferðir. Íþróttamenn geta ekki notað úthlutanir fyrir eigið uppihald, svo sem fyrir húsnæðis- og matarkostnað.

Enn sem komið er hafa yfirvöld á Íslandi ekki komið á fót launakerfi fyrir íslenskt afreksíþróttafólk, sem verða því að hafa í sig og á með öðrum leiðum en opinberum styrkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×