Sport

"Þetta var algjör túrbódagur"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Helgi við æfingar í Lyon á dögunum.
Helgi við æfingar í Lyon á dögunum. Mynd/ÍF
„Það er ekki hægt að lýsa því hvernig mér líður. Þetta er einhver endaleysa í hausnum á mér. Ég veit ekkert hvað ég á að segja," segir nýkrýndur heimsmeistari í spjótakasti Helgi Sveinsson.

Helgi kom, sá og sigraði í flokki F42 á HM í frjálsum íþróttum fatlaðra í Lyon í dag. Sigurkast Helga var upp á 50,98 metra sem er tæplega þriggja metra bæting á nokkurra vikna gömlu Íslandsmeti hans frá því fyrr í sumar.

„Þetta var algjör túrbódagur. Gat hreinlega ekki verið betra," segir Helgi. Hann segir fleiri hafa kastað vel þeirra á meðal kínverski Ólymíumeistarinn frá því í London síðastliðið sumar. Enginn átti þó roð í Helga sem segist hafa vitað að hann ætti ýmislegt inni.

„Við vissum að stórir hlutir gætu gerst en áttum ekki endilega von á þessu," segir Kári Jónsson, þjálfari Helga. Spjótkastarinn var enn að ná áttum þegar blaðamaður Vísis heyrði í honum hljóðið.

„Ég hringi klárlega í einhverja vel valda í símaskránni núna. Ég þarf samt fyrst að ná mér svo ég geti sagt eitthvað af viti í símann," sagði Helgi eldhress.

Helgi Sveinsson.MYnd/GVA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×