Körfubolti

Brad Stevens tekur við liði Boston Celtics

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brad Stevens.
Brad Stevens. Mynd/NordicPhotos/Getty
Brad Stevens, þjálfari Butler-háskólaliðsins í körfubolta, verður næsti þjálfari hins fornfræga NBA-liðs Boston Celtics. Hann tekur við af Doc Rivers sem hætti og tók við liði Los Angeles Clippers. Þetta kom fram í bandarískum fjölmiðlum í kvöld.

Brad Stevens er aðeins 36 ára gamall en hefur náð eftirtektarverðum árangri með Butler-liðið og fór tvisvar með liðið í úrslitaleik bandaríska háskólaboltans árin 2010 og 2011.

Stevens var þjálfari Butler-liðsins í sex ár og liðið vann 77,2 prósent leikjanna þar sem hann stýrði liðinu.

Brad Stevens fær verðugt verkefni því auk þess að missa þjálfarann sinn til Clippers þá fóru stjörnuleikmennirnir Kevin Garnett og Paul Pierce til Brooklyn Nets.

Boston ætlar að byggja upp nýtt lið og liðið verður mjög ungt næsta vetur. Það er því ekki skrýtið að forráðamenn félagsins ákveði að veðja á ungan og stórefnilegan þjálfara.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×