Fótbolti

Heiður að taka við af Heynckes

Pep er mættur í klefann hjá Bayern.
Pep er mættur í klefann hjá Bayern.
Spánverjinn Pep Guardiola var í dag formlega kynntur til leiks sem sem þjálfari Bayern München. Hann tekur við starfinu af Jupp Heynckes sem kvaddi sem þrefaldur meistari.

Guardiola sagði á blaðamannafundi í dag að hann þyrfti að aðlaga sig að félaginu en ekki öfugt. Hann sagði einnig að leikmennirnir væru mikilvægari en þjálfarinn.

Margir bíða spenntir eftir því að sjá boltann sem hann mun láta Bayern spila. Pep segist ekki ætla að láta Bayern spila sama bolta og Barcelona gerði undir hans stjórn.

"Leikmenn Barcelona hafa aðra kosti en leikmenn Bayern. Ég verð því að aðlagast leikmönnunum og vinna með þeirra styrkleika. Fótboltinn er leikmannanna en ekki þjálfarans. Stuðningsmenn mæta til þess að horfa á leikmennina en ekki þjálfarann," sagði Guardiola.

Það verða gerðar miklar væntingar til Guardiola og hann gerir sér grein fyrir því.

"Bayern vann allt sem hægt er að vinna síðasta vetur. Það verða því eðlilega miklar væntingar. Eina sem ég get gert er að reyna að halda liðinu á toppnum. Ég mun vonandi ræða við Heynckes á næstunni en hans skoðanir skipta mig miklu máli.

"Ég ber mikla virðingu fyrir Heynckes og því sem hann hefur afrekað sem þjálfari allan sinn feril. Það er heiður að taka við af honum."

Guardiola vildi lítið ræða leikmannamálin en sagðist reikna með litlum breytingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×