Sport

Heimsmeistari talinn hafa fallið á lyfjaprófi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Veronica Campbell-Brown.
Veronica Campbell-Brown. Nordicphotos/AFP
Talið er að heimsmeistarinn í 200 metra hlaupi kvenna, Veronica Campbell-Brown, hafi fallið á lyfjaprófi. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu og hefur eftir heimildarmönnum sínum nákomnum hlaupakonunni.

Campbell-Brown er sögð hafa fallið á lyfjaprófi þann 4. maí að loknu frjálsíþróttamóti í Kingston, höfuðborg Jamaíka. Campbell-Brown er fremsta íþróttakona Jamaíka, varð Ólympíumeistari í 200 metra hlaupi árið 2004 og 2008, auk þess sem hún er heimsmeistari í greininni.

Prófið á að hafa innihaldið þvagræsilyfið lasix (furosemide) sem er á bannlista því það er notað til að dylja lyfjamisnotkun.

Hún er stærsta konan í frjálsíþróttaheiminum til þess að falla á lyfjaprófi frá því Marion Jones frá Bandaríkjunum viðurkenndi lyfjanotkun. Jones sat í fangelsi í hálft ár auk þess sem fimm verðlaunapeningar hennar, þar af þrjú Ólympíugull, voru teknir af henni.

Campbell-Brown gæti verið dæmd í tveggja ára keppnisbann verði hún fundin sek.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×