Sport

Gatlin skákaði Bolt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gatlin (t.v.) og Bolt (t.h.).
Gatlin (t.v.) og Bolt (t.h.). Nordicphotos/AFP

Bandaríkjamaðurinn Justin Gatlin kom fyrstur í mark í 100 metra hlaupi á Demantamótinu í Róm í gærkvöldi. Usain Bolt þurfti aldrei þessu vant að sætta sig við annað sætið.

Gatlin skilaði sér í mark á 9,94 sekúndum en Bolt var einum hundraðshluta úr sekúndu á eftir honum á 9,95 sek. Jamaíkamaðurinn byrjaði hlaupið frábærlega en fataðist flugið á seinni hluta þess.

„Eftir 50 metra lenti ég í lítilsháttar basli en hlaupið var ekki slakt. Þú lærir af því að tapa. Það er ekki hægt að vinna hvert einasta hlaup. Tímabilið er nýhafið og þetta kemur mér ekki á óvart. Ég hef engar áhyggjur," sagði Bolt.

Afar óvænt úrslit urðu í 200 metra hlaupi kvenna. Ólympíumeistarinn Allyson Felix þurfti að játa sig sigraða gegn Murielle Ahouré frá Fílabeinsströndinni. Ahouré setti landsmet þegar hún kom í mark á 22,36 sekúndum en Felix var nokkuð á eftir henni á 22,64 sek.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×