Sport

Ásdís endaði í áttunda sæti í New York

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Hjálmsdótti.
Ásdís Hjálmsdótti. Mynd/AFP

Ásdís Hjálmsdóttir kastaði lengst 56,9 metra og endaði í áttunda sæti á Demantamótinu í New York í Bandaríkjunum í kvöld. Þýski kastarinn Christina Obergföll tryggði sér sigur með kasti upp á 64,33 metra en í öðru sæti varð Mariya Abakumova frá Rússlandi.

Ásdís byrjaði ekki nógu vel, kastaði 53,0 metra í fyrsta kasti og gerði síðan ógilt í öðru kasti. Hún náði síðan að kasta 56,9 metra í þriðja kastinu en það dugði ekki til að koma henni í hóp sex efstu sem fengu að kasta þrisvar sinnum til viðbótar.

Ásdís var tæpum metra á eftir Sunette Viljoen frá Suður-Afríku og tæpum tveimur metrum frá því að ná sjötta sætinu. Kast Ásdísar á JJ móti Ármanns í síðustu viku upp á 59,04 metra hefði dugað henni í sjötta sætið í New York.

Þetta er annað árið í röð sem Ásdís keppir á Demantamótinu í New York. Hún stóð sig betur í fyrra en þá kastaði hún 58,72 metra sem skilaði henni fimmta sætinu á mótinu. Ásdís átti þá líka kast upp á 57,31 metra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×