Fótbolti

Hjálmar og Hjörtur Logi bikarmeistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjálmar Jónsson.
Hjálmar Jónsson. Mynd/AFP

Hjálmar Jónsson og Hjörtur Logi Valgarðsson urðu í kvöld sænskir bikarmeistarar með liði sínu IFK Gautaborg en þeir fengu þó hvorugur að taka þátt í úrslitaleiknum á  Friends Arena í Solna í Stokkhólmi.

Þetta er fyrsti titill félagsins í fimm ár og stuðningsmenn félagsins ruddust í stórum kippum inn á leikvöllinn eftir að sigurinn var í höfn.

IFK Gautaborg vann leikinn í vítakeppni en liðið skoraði úr þremur af fjórum vítaspyrnum sínum á sama tíma og liðsmenn Djurgården klikkuðu á þremur af fjórum vítaspyrnum sínum. Varamaðurinn Pontus Farnerud skoraði úr síðustu spyrnunni.

Tobias Hysén, fyrirliði IFK Gautaborg, kom sínum mönnum í 1-0 strax á 6. mínútu leiksins en Daniel Amartey jafnaði með skalla á 52. mínútu. Þannig var staðan eftir bæði venjulegan leiktíma og framlengingu.

Hjálmar Jónsson var í leikmannahópi IFK Gautaborg liðsins í leiknum en kom ekki við sögu. Hjörtur Logi var utan hóps. Þetta er í annað skiptið sem Hjálmar verður bikarmeistari með IFK en hann var einnig með í sigri liðsins fyrir fimm árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×