Enski boltinn

Terry missir aftur af úrslitaleik í Evrópukeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry.
John Terry. Mynd/Nordic Photos/Getty
John Terry, fyrirliði Chelsea, verður ekki með liðinu á móti Benfica á morgun þegar liðin mætast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar á heimavelli Ajax í Amsterdam. Terry er ekki búinn að ná sér af ökklameiðslum sem hann varð fyrir um síðustu helgi.

Það verður því Frank Lampard sem ber fyrirliðabandið í leiknum á morgun alveg eins og í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra þegar Terry tók út leikbann. Þeir munu þó lyfta bikarnum saman fari svo að Chelsea vinni leikinn.

John Terry reyndi að hlaupa á æfingu Chelsea-liðsins í dag en það kom strax í ljós að vinstri ökklinn var slæmur og Terry hætti því á æfingunni eftir aðeins einn hring.

Chelsea getur orðið fyrsta félagið sem vinnur Evrópudeildina ári eftir að liðið fagnaði sigri í Meistaradeildinni. Það eru kannski einhverjir farnir að spá vítakeppni í þessum leik því báðir úrslitaleikir Chelsea í Evrópukeppni, síðan að Roman Abramovich eignaðist félagið, hafa farið alla leið í vító.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×