Fótbolti

Rekinn eftir 40 ára starf

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Thomas Schaaf, stjóri þýska liðsins Werder Bremen, var látinn taka poka sinn eftir rúmlega 40 ára samfellt starf fyrir félagið.

Schaaf hefur verið knattspyrnustjóri liðsins undanfarin fimmtán ár en hann hóf knattspyrnuferil sinn hjá félaginu árið 1972, þá ellefu ára gamall.

Bremen varð í fjórtánda sæti þýsku úrvalsdeildarinnar á nýliðnu tímabili og þótti árangurinn valda vonbrigðum.

„Við þökkum Thomas fyrir allt sem hann færði félaginu á rúmlega 40 árum sem leikmaður og þjálfari. Félagið naut mikillar velgengni með honum og hann hefur sett sterkan svip á félagið,“ sagði Thomas Eichin, framkvæmdarstjóri, í tilkynningu félagsins.

„En þetta er niðurstaða okkar eftir að hafa greint stöðu mála síðustu daga. Við viljum byrja upp á nýtt.“

Schaaf spilaði meira en 300 leiki fyrir Werder Bremen og varð tvívegis þýskur meistari, bikarmeistari þrisvar og Evrópumeistari bikarhafa árið 1992.

Hann tók svo við sem stjóri árið 1999 og vann tvöfalt með liðinu fimm árum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×