Fótbolti

Enginn leikur í gangi en samt troðfullur leikvangur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bastian Schweinsteiger.
Bastian Schweinsteiger. Mynd/Nordic Photos/Bongarts

Stuðningsmenn Bayern München voru fljótir að kaupa alla þá 45 þúsund miða sem voru í boði þegar félagð ákvað að bjóða sínu stuðningsfólki tækifæri til að fylgjast með úrslitaleik Meistaradeildarinnar á stórum skjá á Allianz Arena, heimavelli Bayern.

Bayern München mætir Borussia Dortmund á Wembley í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 25. maí næstkomandi en það var afar erfitt að ná í miða á sjálfan leikinn. Þetta er í fyrsta sinn sem tvö þýsk lið mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og eftirspurnin eftir miðum á leikinn var rosaleg hjá báðum félögunum.

Röðin var um 400 metrar þegar byrjað var að selja miðana á Allianz Arena í gærkvöldi og sex klukkutímum síðar voru allir miðarnir farnir þrátt fyrir að sjálfur leikurinn sé í mörg hundruð kílómetra fjarlægð.

Það má samt búðast við stórskemmtilegri stemmningu á Allianz Arena vellinum eftir rúma viku þótt að enginn leikur sé í raun í gangi á vellinum.

Bayern er þegar orðið þýskur meistari í 23. sinn en félagið á möguleika að vinna þrennuna í fyrsta sinn í sögu félagsins. Liðið mætir VfB Stuttgart í bikarúrslitaleiknum 1. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×