Fótbolti

Ársmiðinn hjá Bayern aðeins dýrari en hjá KR

Stuðningsmenn Bayern hvetja liðið áfram á hinum glæsilega velli liðsins, Allianz Arena.
Stuðningsmenn Bayern hvetja liðið áfram á hinum glæsilega velli liðsins, Allianz Arena.
Bayern München er líklega besta lið Evrópu í dag. Liðið gerir allt rétt innan vallar og liðið virðist vart misstíga sig utan vallar heldur. Mikið er kvartað yfir miðaverði á leiki í ensku úrvalsdeildinni enda hefur það hækkað talsvert á undanförnum árum.

Það er ekkert slíkt hjá besta liði Evrópu í dag því ódýrasti ársmiðinn hjá félaginu kostar tæpar 19 þúsund krónur. Til samanburðar má nefna að ódýrasti ársmiðinn hjá Arsenal er á 178.000 kr. Hjá Liverpool er miðinn á 131.000 kr.

Ódýrasti ársmiðinn í ensku úrvalsdeildinni er hjá Wigan en þar kostar ódýrasti ársmiðinn 46.000 kr.

Ársmiðinn hjá KR kostar 15.000 kr. en þar fylgja reyndar kaffiveitingar í hálfleik. Það er því aðeins dýrara að kaupa ársmiða hjá Bayern en hjá KR. Á móti kemur að Bayern spilar mun fleiri leiki þannig að hlutfallslega er ódýrara að kaupa ársmiða hjá Bayern. Flestir ársmiðar hjá liðum í Pepsi-deild karla eru á svipuðu verði og hjá KR.

"Við gætum hækkað þetta miðaverð og fengið nokkrar aukamilljónir í kassann. Hvað munar okkur um nokkrar milljónir? Hækkunin er mjög mikil fyrir stuðningsmanninn en okkur munar ekkert um þetta," sagði Uli Höness, forseti Bayern.

"Við lítum ekki á stuðningsmenn okkar sem einhverjar mjólkurkýr. Fótboltinn verður að vera fyrir alla. Það er munurinn á Þýskalandi og Englandi."

Sportið á Vísi er komið á Facebook. Fylgstu með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×