Fótbolti

Neuer varði víti frá Lewandowski

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Neuer ver hér víti frá Robert Lewandowski.
Manuel Neuer ver hér víti frá Robert Lewandowski. Mynd/NordicPhotos/Bongarts
Borussia Dortmund og Bayern München hituðu í kvöld upp fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli í þýsku úrvalsdeildinni. Dortmund fékk víti í stöðunni 1-1 og lék manni fleiri síðustu 26 mínúturnar en tókst samt ekki að tryggja sér sigur á þýsku meisturunum.

Liðin mætast síðan aftur í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley 25. maí næstkomandi.

Bayern lék án stjörnuleikmanna eins og þeirra Franck Ribery, Arjen Robben, Philipp Lahm og Bastian Schweinsteiger auk þess sem Javi Martinez og Thomas Müller voru á bekknum. Þessi leikur ætti að auka enn sjálfstraust Bayern-liðsins sem hefur sýnt fá veikleikamerki á þessu tímabili og á enn möguleika á því að vinna þrefalt.

Kevin Grosskreutz kom Dortmund í 1-0 á 11. mínútu en Mario Gómez jafnaði tólf mínútum síðar. Í millitíðinni hafði miðjumaðurinn Ilkay Gündogan farið meiddur af velli hjá Dortmund en ekki er þó talið að meiðslin séu alvarleg.

Robert Lewandowski fékk frábært tækifæri til að koma Dortmund yfir eftir klukkutímaleik en lét þá Manuel Neuer verja frá sér víti. Rafinha hjá Bayern, fékk síðan sitt annað gula spjald fjórum mínútum síðar og Bayern-liðið var því manni færri síðustu 26 mínútur leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×