Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Stjarnan 89-101

Elvar Geir Magnússon í Röstinni skrifar
Nú er lokið leik Grindavíkur og Stjörnunnar í lokaúrslitum úrslitakeppni Domino's-deildar karla. Leikurinn var spennandi og jafn en á lokasprettinum reyndust Stjörnumenn sterkari. Lokatölur 89-101.

Stjarnan hefur því tekið forystu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn 2-1 og getur tryggt sér sögufrægan titil með sigri á heimavelli á fimmtudaginn.

Það var hátt tempó í leiknum í kvöld og þetta var stál í stál út í gegn, þar til í fjórða leikhlutanum sem Stjörnumenn sýndu meiri yfirvegun á meðan spilamennska Grindvíkinga hrundi.

Stjarnan var tveimur stigum yfir fyrir lokafjórðunginn. Þar var svo allur meðbyr með þeim og sigri var landað. Flottur karakter eftir vandræðalega stórt tap í síðasta leik.

Það ætti samt enginn að afskrifa Grindavíkurliðið og á fimmtudaginn kemur í ljós úr hverju menn eru gerðir.

Teitur Örlygs: 40 mínútum frá stóra titlinum

"Þetta var frábær fyrri hálfleik. Þeir tóku hrikalega erfið skot og við fráköstuðum vel," sagði Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn.

"Við héldum Jóa (Jóhanni Árna) og Lalla (Þorleifi) vel niðri í seinni hálfleik. Þeir eru hjartað í þessu liði að mínu mati. Jói hafði verið stórkostlegur í fyrri hálfleik. Það gerði gæfumuninn að við spiluðum betri vörn en við gerðum í fyrri hálfleik."

"Þetta var í fyrri hálfleik að spilast eins og Grindavík vill að leikurinn spilist. Það var samt lítill munur og við gerðum okkur grein fyrir því að staðan var ágæt þó þeir hefðu nánast stjórnað fyrri hálfleiknum. Við vorum í fyrsta leikhluta að missa mikið af galopnum skotum sem við erum vanir að setja niður."

"Áhyggjurnar voru ekki miklar. Svo skánaði varnarleikurinn og við fengum eitt til tvö "momentum", sem er dásamleg tilfinning á útivelli, og við sigldum þessu í land."

Stjarnan getur eins og fyrr segir tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á sumardaginn fyrsta.

"Það eru allir heilir í liðinu. Þú sérð það í fjórða leikhluta hvað menn eru í frábæru líkamlegu atgervi þannig að það er engu að kvíða. Við erum 40 mínútum frá því að landa stóra titlinum. Stjarnan í körfubolta hefur aldrei verið svona nálægt því. Að fá að vera á heimavelli þar sem við höfum ekki tapað er gulls ígildi. Við ætlum að búa til flotta stemningu."

"Grindavík er með bakið upp við vegg og þeir koma klórandi. Þeir gerðu það líka í þessum leik en ég er svo ánægður með að við náðum að svara því," sagði Teitur.

Sverrir Sverris: Ætlum okkur að vinna í Ásgarði

"Vörnin okkar var búin að vera frekar döpur og þeir voru að skora full auðveldlega. Á lokakaflanum erum við að stóla of mikið á einstaklingsframtak og það gekki ekki upp," sagði Sverrir Sverrisson, þjálfari Grindavíkur eftir leik.

"Það er dapurt hjá okkur að hafa ekki haldið þetta út og klárað þetta. Nú er ekkert aukatækifæri. Við verðum að vinna á fimmtudaginn."

"Við byrjum undirbúning á morgun, hittumst og förum yfir málin. Við komum tilbúnir og ætlum okkur að vinna þar."

Marvin Valdimars: Þetta verður geðveikt

"Það var kraftur og seigla í liðinu," sagði Marvin Valdimarsson, leikmaður Stjörnunnar.

"Við vorum teknir í bakaríið í síðasta leik og ætluðum ekki að láta það koma fyrir aftur. Ég held að við höfum verið nokkuð klárir í vörn og sókn. Þetta var alvöru tempó og flestallir að spila vel. Þetta eru tvö hörkulið en við vorum aðeins betri í kvöld."

"Við erum bara einum sigri frá þessu og það er gullið tækifæri að landa þeim stóra á Sumardaginn fyrsta. Við verðum að koma enn klárari í þann leik. Þetta verður geðveikt."

Úrslit:

Grindavík-Stjarnan 89-101 (26-24, 22-21, 24-29, 17-27)

Grindavík: Samuel Zeglinski 25/7 stoðsendingar, Aaron Broussard 22/14 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 17, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/13 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 5, Þorleifur Ólafsson 5, Davíð Ingi Bustion 3, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Ryan Pettinella 0, Ólafur Ólafsson 0, Jón Axel Guðmundsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0.

Stjarnan: Brian Mills 25/10 fráköst, Justin Shouse 20/5 fráköst/12 stoðsendingar, Jovan Zdravevski 17/6 fráköst, Jarrid Frye 17/8 fráköst/6 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 14/8 fráköst, Fannar Freyr Helgason 6/8 fráköst, Dagur Kár Jónsson 2, Sæmundur Valdimarsson 0, Kjartan Atli Kjartansson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Daði Lár Jónsson 0.

LEIK LOKIÐ: Grindavík 89-101 Stjarnan. Frábær lokasprettur Stjörnunnar sem er í lykilstöðu til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á fimmtudaginn!

4. leikhl: Grindavík 84-91 Stjarnan. Broussard tapaði boltanum klaufalega og Jarrid Frye tók troðslu. Í kjölfarið bætti Stjarnan við. Er að klára þetta. 1:15 eftir.

4. leikhl: Grindavík 84-89 Stjarnan. Zdraveski farinn af velli, kominn með fimm villur. 2:10 eftir.

4. leikhl: Grindavík 84-89 Stjarnan. Leikhlé tekið. 2:31 eftir. Sverrir þjálfari Grindavíkur hefur kallað eftir meiri pressu frá sínu liði enda lítið eftir.

4. leikhl: Grindavík 80-87 Stjarnan. Marvin var á vítalínunni. Setti bæði ofan í. 3:55 eftir.

4. leikhl: Grindavík 78-85 Stjarnan. Jovan Zdravevski hefur verið sjóðheitur síðustu mínútur Stigið vel upp. Er kominn með 17 stig fyrir þá bláu. Brian Mills tók svaðalega troðslu og allt tryllist í húsinu. Grindavík tekur leikhlé þegar 4:49 eru eftir.

4. leikhl: Grindavík 78-79 Stjarnan. 6 mínútur eftir. Zeglinski kominn með sex þrista, var að setja einn rétt áðan.

4. leikhl: Grindavík 75-76 Stjarnan. Gríðarleg spenna í loftinu og áhorfendur farnir að öskra sem aldrei fyrr.

3. leikhluta lokið: Grindavík 72-74 Stjarnan. Fyrir síðasta fjórðung er Stjarnan með tveggja stiga forystu. Síðustu körfu þriðja leikhluta skoraði Dagur Jónsson fyrir Stjörnuna. Zeglinski er með 21 stig fyrir Grindavík, Broussard 18 og Jóhann Árni 17. Hjá Stjörnunni er Brian Mills með 21 stig, Zdravevski 13.

3. leikhl: Grindavík 60-62 Stjarnan. Enginn er kominn með meira en tvær villur.

3. leikhl: Grindavík 55-58 Stjarnan. Brian Mills setti þriggja stiga fyrir Stjörnuna. Zeglinski vildi ekki vera minni maður og svaraði með þrist í kjölfarið.

3. leikhl: Grindavík 50-53 Stjarnan. Fyrst 8 stig seinni hálfleiks komu frá gestunum úr Garðabæ en svo svaraði Aaron Broussard með skoti sem lak ofan í.

3. leikhl: Grindavík 48-45 Stjarnan. Leikurinn er farinn aftur af stað.

Hálfleikur: Grindavík 48-45 Stjarnan. Gríðarlegt tempó í þessum leik og mikil skemmtun í gangi. Bæði liðin eru í stuði. Jóhann Árni setti niður flautuþrist sem gerir það að verkum að liðið er með forystu í hálfleiknum. Stefnir allt í stórfenglegan seinni hálfleik.

Stigahæstir hjáGrindavík: Jóhann Árni Ólafsson 14, Samuel Zeglinski 12, Aaron Broussard 10.

Stigahæstir hjá Stjörnunni: Brian Mills 13, Justin Shouse 10, Jarrid Frye 8.

2. leikhl: Grindavík 37-36 Stjarnan. Þetta er stál í stál leikur. 3:50 til hálfleiks.

2. leikhl: Grindavík 32-28 Stjarnan. Baráttan heldur áfram og menn eru aðeins farnir að láta ákvörðun dómara fara í taugarnar á sér. Það kryddar.

1. leikhluta lokið: Grindavík 26-24 Stjarnan. Frábær byrjun á þessum leik! Grindavík verið í ákveðnum vandræðum síðustu mínútur en þriggja stiga karfa Daníels Guðmundssonar gerir það að verkum að liðið hefur nauma forystu.

Zeglinski með 10 stig fyrir Grindavík, Jóhann Árni 6. Brian Mills er með 9 fyrir Stjörnuna, Jarrid Frye 6.

1. leikhl: Grindavík 23-20 Stjarnan. Þetta leikhlé Teits skilaði átta stigum í röð. Þá tekur Sverrir leikhlé þegar 1:37 eru eftir af leikhlutanum.

1. leikhl: Grindavík 23-12 Stjarnan. Rúmar þrjár mínútur eftir af leikhlutanum þegar Stjarnan tekur leikhlé. Rétt áður hafði Zeglinski sett ansi smekklegan þrist. Meðbyr með heimamönnum og Teitur tekur hlé til að reyna að stöðva hann.

1. leikhl: Grindavík 11-8 Stjarnan - Grindavík með tvo þrista í röð. Fyrst Samuel Zeglinski og svo Þorleifur Ólafsson. Mikið fagnað í húsinu.

1. leikhl: Grindavík 5-6 Stjarnan - Þetta fer fjörlega af stað og mikill kraftur í liðunum.

Fyrir leik: Grindvíkingar buðu upp á fínasta ljósashow þegar lið þeirra var kynnt til leiks. Þetta er að hefjast.

Fyrir leik: Jón Björn Ólafsson af karfan.is er spámaður kvöldsins: "Þetta er Stjörnusigur 10+" segir Jón Björn og fær skot á sig frá blaðamanni Morgunblaðsins fyrir að taka enga áhættu í sínum spádómi.

Fyrir leik: Stemningin lifnar heldur betur við Grindavíkurmegin þegar stuðningslagið "Þeir skora og skora" er sett á. Hitastigið er í hámarki. Vonandi fáum við spennandi og skemmtilegan leik.

Fyrir leik: Ryan Pettinella tekur virkan þátt í upphitun og segist vera algjörlega klár í slaginn í kvöld.

Fyrir leik: Það er ansi þétt setið þegar 25 mínútur eru í leik. Silfurskeiðin hefur tekið forskot á sæluna og hefur þegar tekið lagið til að hita sig aðeins upp. Plötusnúðurinn býður upp á Offspring.

Fyrir leik: Fólk er mætt tímanlega í íþróttahúsið í Grindavík þar sem styttist í leik. Gaupi er gríðarlega hress og það er fyrir öllu.

Stjarnan tók óvart hvítu búningana sína með en ekki bláu útivallarbúningana. Því var reddað og bláu búningarnir voru að mæta í hús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×